Home / Fréttir / Sjálfstraust bandarískra hermanna til bjargar segir þýskur ritstjóri

Sjálfstraust bandarískra hermanna til bjargar segir þýskur ritstjóri

 

Varsla lögreglumanna tryggði ekki öryggi Thalys-lestarinnar.
Varsla lögreglumanna tryggði ekki öryggi Thalys-lestarinnar.

Föstudaginn 21. ágúst tókst farþegum um borð í lestarvagni á leið frá Amsterdam til Parísar að yfirbuga íslamista. Þetta hefur vakið umræður víða meðal annars á vefsíðu þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung. Hér er stytt endursögn á hugleiðingu Lorenz Hemicker, eins ritstjóra síðunnar, sunnudaginn 23. ágúst.

Í Evrópu er mönnum enn einu sinni brugðið. Eftir að íslamistinn Ayoub El Khazzani beitti vopnum í Thalys-ofurhraðlestinni á leið frá Amsterdam til Parísar berast fréttir um öryggisráðstafanir í Vestur-Evrópu. Viðbrögðin eru gamalkunn. Franskir öryggisverðir fara í eftirlitsferðir. Í Belgíu og Hollandi ganga lögreglumenn vopnaðir vélbyssum um brautapalla og í gegnum lestarvagna. Þetta kann að skapa öryggiskennd hjá farþegum en dugar ekki til að koma í veg fyrir árás.

Í Evrópu má finna einstaklinga sem hafa fallið fyrir áróðri Íslamska ríkisins um að þeim beri að drepa eins marga trúlausa og þeir geta.

Á sama tíma og starfsmenn Thalys um borð í lestinni forðuðu sér og læstu sig inni í eigin öryggisklefa og skildu farþegana eftir á valdi örlaga sinna gripu þrír ungir Bandaríkjamenn til sinna ráða. Alek Skarlatos, Spencer Stone ogh Anthony Sadler stofnuðu lífi sínu í hættu þegar þeir snerust gegn manninum sem hefði annars breytt Thalys-lestinni í blóðvöll. Það spillti ekki fyrir að tveir manna eru hermenn og annar þeirra var nýkominn frá Afganistan. Að vera til þess búinn að fórna lífi sínu fyrir aðra er einskonar starfsskylda þeirra. Á þetta er ekki lögð eins mikil áhersla við þýska hermenn. Hefði þýskur fallhlífarhermaður eða einhver í frönsku útlendingaherdeildinni gert hið sama í lestarklefanum? Að öllum líkinum, já. Hitt er hins vegar staðreynd að ekki eru ávallt hermenn reyndir í stríði nálægir þegar íslamisti gerir árás.

Þegar kemur til hryðjuverkaárásar geta einstakingar ekki lengur treyst á vernd fulltrúa ríkisins, þeir verða því að grípa sjálfir til ráðstafana sér til varnar. Í Bandaríkjunum hafa menn trú á eigin getu til að taka slaginn. Það getur leitt til annarra vandamála. Á föstudaginn, 21. ágúst, bjargaði þetta sjálfstraust lífi hundruð manna. Það ætti að vekja okkur til umhugsunar.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …