Home / Fréttir / Sívaxandi verkefni hvíla á flotastjórn NATO, MARCOM

Sívaxandi verkefni hvíla á flotastjórn NATO, MARCOM

Undir þessari ljósmynd segir á Sputnik News að í Pentagon skjálfi menn á beinunum þegar þeir sjái endurkomu rússneska flotans.
Undir þessari ljósmynd segir  Sputnik News að í Pentagon skjálfi menn á beinunum þegar þeir sjái endurkomu rússneska flotans.

Hér á síðunni má lesa í heild á ensku ræðu sem Clive Johnstone, flotaforingi, æðsti flotatstjórnandi NATO sem yfirmaður MARCOM, Maritime Command, flotastjórnar NATO, flutti á ráðstefnu Varðbergs og Alþjóðamálastofnunar HÍ 23. júní 2017.

Johnstone flotaforingi sagt brýnt fyrir ráðstefnugesti að átta sig á að næstum allt sem snerti umsvif undir merkjum NATO á hafinu væri nýmæli. Læsu menn til dæmis grein frá árinu 2015 um fastaflota NATO, MARCOM eða flotaaðgerðir á vegum NATO væri greinin með öllu úrelt.

Á árinu 2014 hefði krísa myndast í samskiptunum við Rússa og þá hefði einnig verið grafið undan stöðugleika þegar órói og hryðjuverk hefðu búið um sig á Miðjarðarhafssvæðinu og handan þess. Innan flotastjórnar NATO hefðu menn brugðist við þessari breytingu með því að beina meiri athygli að því sem gerðist á fjórum mikilvægustu höfum bandalagsins: Atlantshafi, Eystrasalti, Miðjarðarhafi og Svartahafi.

Flotaforinginn rifjaði upp svör NATO við þessum breytingum og ögrunum á landi. Það mætti sjá á ályktunum ríkisoddvita NATO-þjóðanna á fundum í Wales og Varsjá. Grunnþættir nýs viðbragðsherafla NATO hefðu verið mótaðir, unnið hefði verið að samruna hersveita í austurhluta Evrópu, mynduð hefðu verið framvarnar stórfylki og stofnað hefði verið til erfiðra heræfinga landi eins og Noble Jump og Sabre Strike.

Clive Johnstone sagði:

„Sé hugað að flotamálum ber fyrst að nefna að MARCOM var komið á fót árið 2012, hún er eina flotastjórnin innan herstjórnakerfis NATO. Þetta var til mikilla bóta, skipti meira máli en menn ætluðu á þeim tíma. Þrjár flotastjórnir voru sameinaðar í eina sem leiddi til heildarsýnar og markvissrar forystu og ráðgjafar. Það þurfti hins vegar að glæða þessa flotamiðstöð lífi og afli. Það var stórt bil á milli umsvifa fáeinna skipa sem lánuð voru til að lúta stjórn MARCOM og skipanna í flotum einstakra landa en forveri minn Peter Hudson lagði sig fram um að brúa þetta bil. Á þeim tíma blöstu ekki enn við verkefni sem knúðu á um breytingu.

Hún varð haustið 2015 þegar rússneski flotinn hélt út á úthöfin að nýju af miklum styrk og hann hefur ekki dregið af sér síðan. Fjöldi Kilo-kafbáta og tundurspilla af Grigirovitsj-gerð héldu frá Múrmansk til Svartahafs og Eystrasalts. Flotadeild með flugmóðurskipinu Kuznetsov hélt til átaka á Miðjarðarhafi. Umsvif kafbáta þeirra eru meiri en nokkru sinni síðan í kalda stríðinu og þeirra verður vart á öllum hafsvæðum innan NATO. Komið hefur verið upp loftvarnakerfum til varnar athafnasvæði flotans á norðurslóðum, Miðjarðarhafi og Svartahafi.

Yfirbragð rússneska flotans er annað en það sem við kynntumst árið 2012 svo að ekki sé farið lengra til baka. Enn má sjá nokkur skip sem settu svip sinn á sovéska flotann og þau hafa að nokkru verið endurnýjuð. Þannig má nefna að stýriflaugakafbátar af Oscar-gerð hafa nýlega látið verulega að sér kveða á Atlantshafi og Miðjarðarhafi.

Merkilegra er þó að skoða nýju skipin sem birst hafa í vopnabúri þeirra. Severodmorsk kjarnorkukafbáturinn er sagður mjög hljóðlátur. Hann veldur ef til vill þáttaskilum í Norður-Atlantshafi. Samhliða þessu hafa birst ný, léttari skip til aðgerða og yfirráða á hafsvæðum við strendur – freigátur, korvettur, skotflaugabátar og nýir Kilo dísil-rafmagnskafbátar – allt skip búin Kalibr stýriflaugum gegn skotmörkum á landi. Allt skapar þetta umtalsverðan slagkraft. Þeir beita þessu afli á þaulhugsaðan hátt til að hafa sem mest pólitísk áhrif.

Þessi breyting á flota Rússa og framganga þeirra á hafinu hvatti einkum til þess að flotamálefni gengu í endurnýjun lífdaganna innan NATO. Við höfum fylgst nánar með ferðum rússneskra herskipa og kafbáta á Norður-Atlantshafi og Miðjarðarhafi en nokkru sinni eins og sást best á nákvæmu eftirliti okkar með ferðum Kuznetsov-flotadeidarinnar á árinu 2016.

Hér er ekki aðeins um eftirlit að ræða heldur einnig fælingaraðgerð sem ætlað er að sýna staðfestu og koma í veg fyrir að eitthvað gerist af slysni. Þetta gefur bandalagsþjóðunum færi á að hafa stjórn á stigmögnun. Reynsla okkar af samskiptum við rússneska flotann segir okkur að með þessari aðferð gengur vel að viðhalda stöðugleika og varðveita friðinn.

Hvernig okkur tókst þetta er ein af stórfréttunum frá í fyrra sem fékk of litla athygli. NATO samþykkti stefnu um stjórn bandalagsins á hafi úti og vegna áskorunar Rússa gafst okkur tækifærti til að hrinda henni í framkvæmd. Innan flota margra landa samhæfðu menn kraftana til að fylgjast með flotaumsvifum Rússa á Atlantshafi og Miðjarðarhafi í gegnum MARCOM. Við urðum hlutlaus milligönguaðili og úthlutuðum hafsvæðum til að stjórnendur herskipanna gætu stillt saman krafta sína eins og við höfum gert fyrir stjórnendur kafbáta og eftirlitsflugvéla árum saman.

Þetta takmark náðist vegna þess að við beindum öllum kröftum MARCOM að aðgerðum og aðferðum við að hrinda þeim í framkvæmd. Bandalagsþjóðirnar höfðu beinan fjárhagslegan hag af því hvernig MARCOM lagði þeim lið.

Fastafloti NATO hafði að sjálfsögðu hlutverki að gegna þarna. Og það munar um hann – það þyrfti flota með 33 freigátum og 24 tundurduflaslæðurum til að halda úti þeim flota sem ég hef nú undir minni stjórn. Kanadíska freigátan St. John´s leggur nú frábæran skerf af mörkum í þágu NATO sem hluti af annarri fastaflotadeild NATO á Miðjarðarhafi.

Þegar á þetta allt er litið skipti í raun mestu að MARCOM gat á virkan hátt samhæft meira en 30 skip bandalagsþjóðanna þegar Kuznetsov var á siglingu og í minna mæli gagnvart fleiri rússneskum herskipum. Þetta var höfuðhlutverk SACLANT [Atlantshafsherstjórnarinnar] í kalda stríðinu og MARCOM tók við þessu verkefni árið 2016 með aðstoð flotastjórna í öllum bandalagsríkjunum.

Þetta hlutverk er mikilvægt þegar litið er á stuðning flota við heraflann í framstöðu [það er lið NATO sem sent hefur verið til Eystrasaltslandanna og Póllands]. Atlantshaf myndar bakdyr Eystrasalts og Miðjarðarhafs. Enn á ný skiptir miklu að halda siglingaleiðunum milli Norður-Ameríku og Evrópu opnum. Ég vinn náið með flotastjórn Bandaríkjanna, sjötta flota Bandaríkjanna, franska flotanum og öðrum til að tryggja öryggi Atlantshafsbrúarinnar.

Þessi ábyrgð leggur þungar skyldur á höfuðstöðvar mínar og sérstaklega á aðgerðastjórnina. Við lögðum hart að okkur í marga mánuði til að skapa sterk tengsl milli aðgerðastjórnar MARCOM og aðgerðastjórna bandalags- og samstarfsþjóða til að koma á eftirliti með smygli á farandfólki í Eyjahafi, í aðgerðinni Operation Sea Guardian, og til að fylgjast með ferðum rússneska flotans. Í ár færi ég út kvíarnar í því skyni að æfa  tengsl aðgerðarstjórna bandalagsþjóðanna við MARCOM og til að koma á sambandi milli forstjóra þeirra.“

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …