Home / Fréttir / SIPRI: Rússar draga úr útgjöldum til hermála í fyrsta sinn í 20 ár

SIPRI: Rússar draga úr útgjöldum til hermála í fyrsta sinn í 20 ár

Súlurit SIPRI sýnir þróun hernaðarútgjalda,
Súlurit SIPRI sýnir þróun hernaðarútgjalda,

Útgjöld til hermála í heiminum hafa ekki verið eins há frá lokum kalda stríðsins fyrir aldarfjórðungi og á árinu 2017. Athygli vekur að í fyrsta sinn í 20 ár minnka hernaðarútgjöld í Rússlandi.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sænsku friðarrannsóknastofnunarinnar SIPRI sem birt var miðvikudaginn 2. maí. Bandaríkjamenn, Kínverjar og Sádar verja mestu fé til hermála segir í skýrslunni.

Rússar hafa löngum verið í þriðja sæti á eftir Bandaríkjamönnum og Kínverjum. Sádar fóru að þessu sinni fram úr þeim. Rússar vörðu að sögn SIPRI 66,3 milljörðum dollara til hermála árið 2017, 20% lægri fjárhæð en 2016. Þeir hafa ekki dregið úr útgjöldum til málaflokksins síðan 1998. SIPRI segir að skýra megi samdráttinn með lækkun olíuverðs. Siemon Wezeman, sérfræðingur hjá SIPRI, að þrátt fyrir þetta sé það forgangsmál í Rússlandi að endurnýja heraflann.

SIPRI segir að ríki heims hafi samtals greitt 1,73 billjónir dollara til hermála á árinu 2017. Það er 1,1% meira en árið 2016 og jafngildir 230 dollurum á mann eða 2,2% af vergri heimsframleiðslu.

Dr. Nan Tian, sérfræðingur hjá SIPRI, segir að rekja megi aukin hernaðarútgjöld í heiminum undanfarin ár að mestu til hærri útgjalda í Asíu og Eyjaálfu auk Mið-Austurlanda. Megi í því samandi nefna ríki eins og Kína, Indland og Sádi-Arabíu. Sé litið á heimsþróunina megi sjá að útgjaldaþunginn færist greinilega frá Evrópu og Atlantshafssvæðinu.

Bandaríkjamenn verja eins og áður mest allra til hermála og er talið að útgjöld til málaflokksins hafi numið 620 milljörðum dollara árið 2017 eins og árið 2016.

Aude Fleurant, sérfræðingur hjá SIPRI, segir að samdráttur í hernaðarútgjöldum Bandaríkjamanna sem hófst árið 2010 sé úr sögunni.

Kínverjar greiddu um 228 milljarða dollara til herafla síns og hafa útgjöld þeirra aukist mest milli ára um 5,6%. Þegar litið er á hlutdeild Kínverja í hernaðarútgjöldum í öllum heiminum hefur hún aukist úr 5,8% árið 2008 í 13% árið 2017.

Indverjar vörðu 63,9 milljörðum dollara til hermála árið 2017. Það er 5,5% aukning frá árinu 2016. Útgjöld Suður-Kóreumanna nema 39,2 milljörðum dollara sem er 1,7% hækkun frá 2016. Siemon Wezeman segir að spenna milli Kínverja og margra nágranna þeirra ýti undir aukin hernaðarútgjöld í Asíu.

 

 

.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …