
Friðarrannnsóknastofnunin í Stokkhólmi (SIPRI) birti nýlega skýrslu sem sýnir þróun hernaðarútgjalda. Bandaríkjamenn verja mun meira fé en aðrir til málaflokksins. Í skýrslunni segir að útgjöld Rússa hafi dregist saman og þeir hafi árið 2018 verið í sjötta sæti meðal þjóða heims þegar litið sé til hernaðarútgjalda. Útgjöld þeirra hafi numið 61,4 milljörðum dollara árið 2018.
Michael Kofman, sérfræðingur við CBA Corporation í Bandaríkjunum og félagi í Wilson Center’s Kennan Institute segir á vefsíðunni Defense News að þessi tala gefi ekki rétta mynd. Hernaðarútgjöld Rússa séu mun hærri, þeir séu þriðju í röðinni á eftir Bandaríkjamönnum og Kínverjum. Þau séu meiri en sameiginleg hernaðarútgjöld annarra Evrópuríkja. Nær sé að tala um 150 til 180 milljarða dollara á ári og Rússar verji hærra hlutfalli til vopnakaupa, rannsókna og þróunar en gert sé í fjárlögum Vesturlanda.
Kofman reisir athugun sína á kaupmáttarjöfnuði e. purchasing power parity (PPP) og á þeim grunni séu Rússar sjötta efnahagsveldi heims og ekki sé langt síðan þeri hafi haft meiri efnahagslegan styrk en Þjóðverjar og þar með verið fremstir í Evrópu.
Ekki eigi að reikna útgjöld Rússa á dollaragengi þar sem þeir kaupi ekki vopn sín fyrir dollara, segir Kofman. Það sé þó með þeirri aðferð sem SIPRI kynni töluna 61,4 milljarða dollara. Þar með eru Rússar settir neðar á listann en Frakkar þótt alls séu um 900.000 rússneskir hermenn undir vopnum auk þess sem Rússar ráði yfir kjarnorkuvopnum sem dugi til árása á Bandaríkin.
Kofman segir að Rússar verji allt að 4% af vergri landsframleiðslu til hermála um 4 trilljónium rúblna árið 2018. Um trilljón rúblna til málaflokksins sé að finna utan hefðbundinna útgjalda til varnarmála. Kofman segir að ráðamenn í Moskvu geri sér grein fyrir að útgjöldin til varnarmála megi ekki sliga efnahagslífið, þeir viti að stjórnlaus hernaðarútgjöld áttu hlut í hruni Sovétríkjanna.
Grein sinni lýkur Kofman á þessum árum:
„Stjórnvöld í Moskvu eru ekki að ganga fram af sér með útgjöldum til varnarmála en hlutfall hernaðarútgjalda af vergri landsframleiðslu er enn of hátt, sem minnir á vandamálið sem Talleyrand kynnti Napóleon: „Það má nota byssustingi til alls annars en að sitja á þeim.“ Það kann að þykja þægilegt að trúa því einfaldlega að eitthvað láti undan þegar rýnt er í staðnað ástand í samþættingu efnahags- og stjórnmála í Rússlandi. Því má þó ekki gleyma að Rússland er ekki Sovétríkin sem urðu að engu með eyðslu og efnahagshruni og við lifum ekki á níunda áratugnum. Við blasa þau sannindi að í fyrirsjáanlegri framtíð lætur ekkert undan. Þetta getur haldið áfram og gerir það.“