Home / Fréttir / Singapúr-fundurinn: Ólík afstaða stjórnvalda og fræðimanna

Singapúr-fundurinn: Ólík afstaða stjórnvalda og fræðimanna

 

Kim Jong-un og Donald Trump í Singapúr.
Kim Jong-un og Donald Trump í Singapúr.

„Þetta gekk betur en nokkur þorði að vona, frábært,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sögulegan fund sinn með Kim Jong-un í Singapúr þriðjudaginn 12. júní. Niðurstaða fundarins var að fjarlægja ætti kjarnorkuvopn frá Kóreuskaganum. Engar dagsetningar voru þó nefndar en ferli sett af stað. Kim lét einnig í ljós ánægju sína: „Heimurinn mun kynnast mikilli breytingu,“ sagði hann.

Í svissneska blaðinu Basler Zeitung er litið til þess hvernig aðrir brugðust við niðurstöðu fundarins og er vitnað til þess hér.

Frakkar og Bretar fögnuðu loforði Kims um að fjarlægja kjarnorkuvopnin. Sömu sögu er að segja um Federicu Mogherini, utanríkismálastjóra ESB. Hún taldi að fundurinn staðfesti þá grundvallarskoðun ESB að aðeins yrði unnt að tryggja varanlegan frið á Kóreuskaga með diplómatískum samtölum.

Mogherini sagði að ESB mundi styðja alla viðleitni og viðræður sem miðuðu að því að fjarlægja öll kjarnorkuvopn frá Kóreuskaganum. Yfirlýsing Kims og Trumps gæfi vonir um að því markmiði yrði náð.

Kínverjar brugðust einnig við á jákvæðan hátt strax eftir að fundinum lauk í Singapúr. Utanríkisráðuneyti Kína sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að leiðtogar Norðru-Kóreu og Bandaríkjanna hefðu haldið árangursríkan og jákvæðan fund.

Á fundinum hefði verið stigið „mikilvægt skref“ með yfirlýsingunni um kjarnorkuafvopnun. Kínverjar mætu mjög mikils pólitískar ákvarðanir Trumps og Kims og vonuðu að þeir hittust að nýju. Kínverjar væru „sem mikilvægur aðili“ málsins fúsir til að vinna með öllum viðeigandi aðilum að kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga og að nauðsynlegu friðarferli.

Rússneska utanríkisráðuneytið lítur á toppfundinn sem hvata til þess að gengið verði til friðargerðar á Kóreuskaga. „Það er fagnaðarefni að stigið hefur verið mikilvægt skref fram á veginn,“ sagði Sergeij Rjabkov, varautanríkisráðherra við Tass-fréttastofuna í Moskvu. Það yrði hins vegar að gæta sín á smáa letrinu, oft reyndist erfitt að greiða úr flækjum sem þar fyndust.

Rjabkov vill að viðræðunum verði fram haldið á vettvangi svonefndra sexvelda, það er Norður- og Suður-Kóreu, Japans, Bandaríkjanna, Kína og Rússlands. Rússar sætti sig ekki við það frekar en Bandaríkjamenn að Norður-Kórea verði kjarnorkuveldi.

Moon Jae-in, forseti S-Kóreu, varaði menn við að fyllast of miklum fögnuði. Hann bar lof á Trump og Kim fyrir að sýna hugdirfsku en minnti á að þetta væri aðeins upphaf. Vafalaust yrðu margar hindranir á leiðinni framundan. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, var sömu skoðunar: „Þetta er eitt skref til lausnar á víðtæku, margþættu vandamáli sem tengist Norður-Kóreu,“ sagði Abe.

Ríkisstjórn Írans sendi viðvörun til Norður-Kóreumanna, það væri varasamt að treysta Bandaríkjastjórn í kjarnorkumálum. Mohammad Bagher Nobacht, talsmaður ríkisstjórnar Írans, sagði að Donald Trump gæti haft sérhvert samkomulag að engu. „Hér er á ferð maður sem dregur til baka það sem hann hefur undirritað í útlöndum,“ sagði talsmaðurinn.

Þarna er greinilega vísað til þess að Trump dró til baka nafn sitt undir sameiginlegri yfirlýsingu G7-leiðtogafundarins í Kanada. Þetta gerði hann daginn eftir að fundinum lauk á leið sinni í flugvél til Singapúr. Áður hafði hann sagt Bandaríkin frá kjarnorkusamkomulaginu við Íran.

Andrei Lankov, háskólaprófessor í Seoul, höfuðborg S-Kóreu, sérfróður um stjórnarhætti kommúnistaríkja og fyrrverandi kommúnistaríkja, gagnrýnir niðurstöðuna í Singapúr. Hann segir samkomulagið „í raun einskis virði“ á Twitter. Trump hefði mistekist að ná alvöru niðurstöðu. Lankov finnst Kim sigurvegari fundarins. „Þetta hefur orðið Norður-Kóreumönnum hvatning og Bandaríkjamenn náðu engu fram.“

Michael McFaul, prófessor við Stanford, gagnrýndi að Bandaríkjaforseti hampaði harðstjórum og léti samtímis höggin dynja á vestrænum bandamönnum Bandaríkjanna. Með fundinum hefðu Bandaríkjamenn gefið „mikið fyrir ekkert“.

 

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …