Home / Fréttir / Símtal Trumps við Xi Kínaforseta léttir andrúmsloftið

Símtal Trumps við Xi Kínaforseta léttir andrúmsloftið

 

Xi Jinping, forseti Kína. (Source: Reuters)
Xi Jinping, forseti Kína. (Source: Reuters)

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði Xi Jinping Kínaforseta í símtali föstudaginn 10. febrúar að Bandaríkjastjórn mundi virða stefnuna sem kennd er við „eitt Kína“. Í henni felst að Tævan sé í raun hluti Kína þótt eyríkið lúti eigin stjórn.

Litið var á yfirlýsingu Trumps sem mikilvægt fyrsta skref til að bæta samskipti ríkjanna sem voru í skugga símtal sem Trump átti við Tsai Ing-wen, forseta Tævans, í desember 2016 eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember.

Þá hafa ummæli Trumps á Twitter ekki orðið til að draga úr ótta margra við að fyrir honum vekti að storka kínverskum ráðamönnum.

Í tilkynningu frá skrifstofu Trumps sagði að samtal forsetanna hefði snúist um mörg mál og það hefði verið „einstaklega alúðlegt“ og þeir hefðu skipst á heimboðum.

Kínverskir ráðamenn líta á viðurkenninguna á „einu Kína“ sem hornstein pólitískra samskipta við Bandaríkjastjórn. Skil urðu á milli ráðamanna á meginlandi Kína annars vegar og Tævan hins vegar árið 1949. Frá þeim tíma hafa ríkin þróast á ólíkan hátt undir stjórn kommúnista á meginlandinu en lýðræðissinna í eyríkinu.

Í Peking vilja menn ná valdi yfir Tævan, með hervaldi ef nauðsyn krefst. Íbúar Tævans vilja hins vegar ekki  yfirráð þeirra.

Stjórnmálaskýrendur segja að ekki beri endilega að ráða of mikið í vinsamlega afstöðu Trumps í þessu samtali við Kínaforseta. Í tilkynningu frá Hvíta húsinu í Washington segir: „Trump forseti samþykkti að beiðni Xi forseta að virða stefnu okkar um „eitt Kína“.“

Sumir segja að Trump hafi einfaldlega dregið í land eða gefist upp fyrir Kínverjum. Andrew Neill, hjá Alþjóðahermálastofnuninni (IISS), segir hins vegar að huga verði að orðalagi tilkynningarinnar um efni símtalsins.

Sérstaka athygli veki að í tilkynningunni sé talað um „okkar“ en ekki stefnu Kína um „eitt Kína“ og vísað sé til „beiðni“ Kínaforseta. Neill segir:

„Við lestur tilkynningarinnar blasir við að Xi hafi þrýst á Trump og þá hafi hann samþykkt að virða stefnu „okkar“ um eitt Kína. Orðalagið eða blærinn gefur til kynna að hann vilji ekki láta troða kínversku útgáfunni á stefnunni um „eitt Kína“ ofan í kok sér.“

Neill telur líklegt að Trump reyni að víkka töluvert óopinber samskipti við Tævani.

Þegar Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sat fyrir svörum í utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í aðdraganda þess að hann hlaut skipun í embætti lét hann orð falla að hugsanlega yrði gripið til þvingana vegna framgöngu Kínverja á Suður-Kínahafi. Þessi ummæli kölluðu fram hörð viðbrögð í Peking.

Undanfarna daga hefur stjórn Trumps mildað afstöðu sína í garð Kínverja. Sumir segja að Henry Kissinger, höfundur Kínastefnu Bandaríkjastjórnar fyrir rúmum 40 árum, hafi kippt í spotta og nú sé unnið að því að Kissinger-væða samskiptin af hálfu ráðamanna í Washington, það er leggja áherslu á efnislega lausn mála í stað þess að skiptast á stóryrðum eða vera með „stæla“ af öðru tagi.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …