
Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, hefur varað Rússa við hættunni á nýju vígbúnaðarkapphlaupi vegna árekstranna í austurhluta Úkraínu og hvatt til fækkunar venjulegra vopna. Bandaríkjamenn og Þjóðverjar hafa gagnrýnt Rússa fyrir að setja upp nýjar eldflaugar á þann hátt að þær ógni ríkjum NATO og Evrópu.
Eftir fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, í Moskvu fimmtudaginn 9. mars sagði Gabriel að þeir hefðu ákveðið að halda áfram viðræðum innan svonefnds Normandie-ramma – það er með þátttöku Rússa, Úkraínumanna, Þjóðverja og Frakka – um leiðir til að binda enda á átök stjórnarhers Úkraínu og aðskilnaðarsinna með stuðningi Rússa í austurhluta Úkraínu.
Þjóðverjar eiga hermenn í rúmlega 4.000 manna liðssveit á vegum NATO sem dreifist á Eystrasaltsríkin og Pólland. Rússar hafa á hinn bóginn flutt tugi þúsunda hermanna að vestur landamærum sínum.
„Við höfum áhyggjur af að nýtt vígbúnaðarkapphlaup sé að hefjast,“ sagði Gabriel. Ef tækist að leysa Úkraínudeiluna yrði unnt að fækka vopnum.
Lavrov sagði Rússa hafna öllum ásökunum um að þeir hefðu fjölgað hermönnum úr hófi við vestur landamæri sín. Hann viðurkenndi að Rússar og NATO hefðu hafið varleg upplýsingaskipti um heræfingar.
Áður en fundur Gabriels og Lavrovs var haldinn eða miðvikudaginn 8. mars benti þýski utanríkisráðherrann einnig á hættuna af því að Rússar hafa sett upp Iskander eldflaugar í rússnesku hólmlendunni Kaliningrad.
„Verði Iskander-flaugar til frambúðar í Kaliningrad er það mikið áhyggjuefni og vegur á öryggi Evrópu,“ sagði Gabriel við rússnesku ríkisfréttastofuna Interfax.
Rússar fluttu flaugarnar sem ná til Berlínar til Kaliningrad í fyrra í tengslum við heræfingar. Í Kaliningrad eru 25.000 rússneskir hermenn, flaugar sem skjót má á flugvélar og skip auk þess tvö herskip sem búa má kjarnorkuvopnum.
Rússar hafa sett upp stýriflaugar á landi á þann veg að þeir brjóta gegn anda og markmiðum samningsins um meðaldrægar eldflaugar, Intermediate Nuclear Forces [INF,“ sagði bandaríski hershöfðinginn Paul Selva, ráðgjafi í Hvíta húsinu í Washington, á fundi nefndar bandarískra fulltrúadeildarþingmanna miðvikudaginn 8. mars. INF-samningurinn var gerður í kalda stríðinu.
„Kerfið skapar hættu fyrir flestar stöðvar okkar í Evrópu og við teljum að Rússar setji það beinlínis upp í þeim tilgangi að ógna NATO og aðstöðu á varnarsvæði NATO,“ sagði hann. „Þeir ætla ekki að virða samninginn.“
Mark Toner í bandaríska utanríkisráðuneytinu sagði sama dag: „Við teljum að þeir brjóti [INF] samninginn. Við höfum komið þeirri skoðun á framfæri við Rússa, þeim er fullljóst að okkur stendur ekki á sama.“
Andrew Rettman, blaðamaður hjá EUobserver, segir í grein um þetta föstudaginn 10. mars að háttsettir stjórnarerindrekar frá Póllandi og Eystrasaltsríkjunum hafi hitt bandaríska þingmenn fyrr í þessari viku og lýst áhyggjum sínum vegna ágengni rússneska hersins.
Rússar segja að ákvörðun NATO um að beita allt að 5.000 hermönnum í hraðliði til að auka öryggi Eystrasaltsþjóðanna ógni öryggi sínu. Í samtalinu við Interfax hafnaði Gabriel þessari staðhæfingu, herafli NATO minnti á smápeð andspænis miklum herafla Rússa á þessum slóðum.
„Þjóðverjar og aðrar NATO-þjóðir voru ekki fyrri til að láta að sér kveða á Eystrasaltsvæðinu,“ sagði Sigmar Gabriel.