
Efnt var til athafnar föstudaginn 21. desember þegar hætt var 155 ára kolanámugreftri í Prosper-Haniel í þýska Ruhr-héraðinu. Áfram verður haldið við vinnslu á brúnkolum úr opnum Hambach Garzweiler-námum.
Prosper-Haniel var áratugum saman stærsti vinnuveitandinn í Bottrop, kolabæ í Ruhr-héraðinu. Þegar síðustu námu félagsins var formlega lokað voru þar námuverkamenn og fyrirmenni. Frank-Walter Steinmeier Þýskalandsforseti tók við síðasta kolamolanum úr hendi námumanns sem hafði sótt hann í iður jarðar.
Steinmeier rifjaði upp sögu kolanámuvinnslu í Þýskalandi og sagði hana hafa dregið til sín verkamenn frá öllum löndum Evrópu. Kol hafi stuðlað að kynnum milli fólks sem ekkert þekktist. Nú ætti að líta til nýrrri tækifæra.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði: „Ekki er unnt að skilja á milli kola og hagsældar. Nú í dag vottum við hugrekki og hæfni námumannanna virðingu okkar.“
Hætt var greftri í Prosper-Haniel námunni í september 2018. Ákveðið var árið 2007 að loka henni en þá voru 30.000 námuverkamenn í Þýskalandi. Í lok árs 2017 voru þeir aðeins 5.700 og flestir í Bottorp.
Þegar rætt er um þýska „efnahagsundrið“ á sjötta áratug síðustu aldar staldra menn við mikilvægi kolaiðnaðarins og þátt hans í því.
Í Bottorp hafa menn lagað sig að þessum þáttaskilum meðal annars með því að stofna skemmtigarð og leggja stærstu innanhúss-skíðabrekku í Evrópu. Atvinnuleysi á svæðinu er nú rétt um 6,3% en meðaltals atvinnuleysi í Þýskalandi er 5%.
Þýsku kolanámurnar hafa notið ríkisstyrkja og frá 1998 hafa þýskir skattgreiðendur borgað meira en 49 milljarða evra til að halda þeim opnum.
Brúnkolavinnsla heldur áfram í opnum námum í Hambach Garzweiler nálægt Köln og vinnslusvæði vegna þeirra stækkar með niðurrifi smábæja. Talið er að brátt sjái einnig fyrir endann á þessari vinnslu í samræmi við loftslagsmarkmið Þýskalands.