
Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, heimsótti stöðvar rússneska Norðurflotans á Kólaskaga þriðjudaginn 13. apríl. Ráðherrann var þó einnig með hugann við rúmlega 80.000 manna liðsafnað Rússa við landamæri Úkraínu og á Krímskaga. Hann sagði tvo heri og þjár sveitir fallhlífarhermanna verða þarna á æfingum til loka apríl.
Ferðina á Kólaskagann fór ráðherrann til að kynna sér stöðuna á norðurslóðum. Með honum voru Nikolai Jevmenov, yfirmaður rússneska flotans, og Aleksandr Moiseev, yfirmaður Norðurflotans. Þeir fóru um stöðvar og hafnir flotans á strönd Barentshafs og þar á meðal til Gadzhievo skammt frá Múrmansk þar sem langdrægi kjarnorkukafbátar athafna sig.
Ráðherrann sagði Norðurflotann hefði nægan styrk til að takast á við núverandi verkefni og ógnir á norðurslóðum (e. Arctic). Hann áréttaði að nútíma vopn væru nú flutt á þessar slóðir og unnið væri að gerð mannvirkja við norðurstrendur landsins.
Þegar varnarmálaráðherrann vék að öryggishagsmunum Rússa almennt og nýlegu herútkalli í nágrenni Úkraínu sagði hann að ekki hefði verið tilkynnt fyrir fram um hernaðarumsvifin enda væri um tímabundna viðbragðsæfingu að ræða.
Shoigu sagði að herirnir væru nú fullvirkjaðir í æfingum og þeir hefðu sýnt nægt afl til að sinna verkefnum sínum í þágu þjóðaröryggis. Þeir sneru brátt að nýju til búða sinna.
„Vinsamlega hafið hugfast að ætlunin er að öllum eftirlitsaðgerðum [í nágrenni Úkraínu] verði lokið innan tveggja vikna,“ sagði Shoigu í lok máls síns þegar hann kvaddi Severomorsk, höfuðstöðvar Norðurflotans.
Heimild: Barents Observer