Home / Fréttir / Sextíu ára afmæli forvera Varðbergs

Sextíu ára afmæli forvera Varðbergs

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Varðberg – Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál sem stofnað var árið 2010 er sett saman úr tveimur félögum. Annars vegar var um að ræða Samtök um vestræna samvinnu (SVS) og hins vegar Varðberg – félag ungra áhugamanna um vestræna samvinnu.  Megintilgangur beggja félaganna var að stuðla að friði í Evrópu með því að hvetja til samstöðu vestrænna ríkja.  Félögin voru stofnuð upp úr miðri síðustu öld en á þessum tíma voru utanríkismál eitt helsta deilumálið í íslenskum stjórnmálum.  Eftir seinni heimsstyrjöldina hafði Ísland skipað sér í flokk með vestrænum ríkjum með því að gerast stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) árið 1949 og gera varnarsamning við Bandaríkjamenn tveimur árum síðar. Ekki voru allir sáttir við það.

Deilurnar voru ekki aðeins á stjórnmálasviðinu heldur náðu þær til alls samfélagsins.  Ein birtingarmynd þeirra voru ýmis félög sem voru stofnuð til þess að berjast fyrir tilteknum málstað.  Þar gátu komið saman aðilar sem unnu ekki saman að öllu jöfnu.  Þannig var háttað um Samtök um vestræna samvinnu sem stofnuð voru 1957.  Í þeim störfuðu einstaklingar úr Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Þó þeir ættu takmakaða samleið í innanlandsmálum stóð þeim slíkur stuggur af alræðisöflum á alþjóðavettvangi að þeir voru fúsir til þess að leggja stjórnmálaskoðanir á hilluna og snúa bökum saman til þess að berjast fyrir hugsjónum sínum.  Þremur árum eftir að SVS var stofnað var ákveðið að stofna ungliðahreyfingu sem myndi berjast fyrir sömu gildum og þau.  Skyldi félagið heita Varðberg og voru forsendurnar fyrir stofnun þess þær sömu og hjá SVS, þ.e. þar börðust ólíkir stjórnmálamenn gegn sameiginlegum andstæðingi.  Varðberg var stofnað í júlí 1961 og er því um það bil sextíu ár frá því félagið var sett á laggirnar.

 

Upphafsmánuðir

Vegna tímamótanna er við hæfi að fara yfir upphaf samtakanna og fyrstu verkefni félagsins.  Þó ekki sé um langt tímabil að ræða veitir þetta góða innsýn inn í þau átök sem áttu sér stað um alþjóðamál á þessum árum.

Sögu Varðbergs má rekja til ráðstefnu ungra leiðtogaefna í stjórnmálum (e. The Atlantic Conference of Young Political Leaders) sem haldin var í Washington árið 1960.  Ráðstefnan sem var önnur sinnar tegundar, sú fyrsta var haldin í París árið 1958, var hluti af ungmennaáætlun Atlantshafsbandalagsins sem ýtt var úr vör um miðjan sjötta áratuginn.  Markmið hennar var að kynna tilgang NATO fyrir ungu fólki og þannig stuðla að því að bandalagiið myndi njóta stuðnings íbúa aðildarríkjanna í framtíðinni.  Þrír Íslendingar sóttu ráðstefnuna í Washington.  Voru þeir tilnefndir af ungliðahreyfingum þriggja flokka hér á landi. Guðmundur H. Garðarsson var fulltrúi ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Guðmundsson fór fyrir hönd ungra jafnaðarmanna og ungir framsóknarmennn kusu Jón Rafn Guðmundsson sem fulltrúa sinn.  Margir þeirra sem sóttu ráðstefnuna urðu hvatamenn að stofnun ungmennasamtaka Atlantshafsbandalagsins í heimalöndum sínum.  Átti það líka við um íslensku fulltrúana þrjá og fljótlega eftir heimkomuna stofnuðu þeir undirbúningsnefnd sem ætlað var að leggja grunninn að stofnun slíkra samtaka hér á landi.  Vinnan sóttist vel og var stofnfundur Varðbergs þann 18. júlí 1961.  Þar voru mættir um það bil hundrað manns og var einhugur meðal þeirra.  Þannig voru lög félagsins samþykkt í einu hljóði.  Skyldi markmið félagsins vera að kynna stefnu og störf NATO og stuðla að samvinnu vestrænna lýðræðisríkja á sem flestum sviðum.  Annað grunnverkefni Varðbergs var að stuðla að því að viðhorf stjórnmálaflokkanna þriggja til utanríkismála væru keimlík.  Til að treysta samvinnu flokkanna innan samtakanna var ákveðið að þeir skyldu hafa jöfn áhrif innan stjórnar félagsins og átti hver þeirra að fá formannssætið á þriggja ára fresti.  Samskipti við systursamtök í öðrum NATO ríkjum skiptu líka máli og gerðist félagið aðili að regnhlífasamtökum þeirra sem báru enska heitið Atlantic Political Youth Association.

Fjallað var um stofnfund Varðbergs í dagblöðum.  Á þessum árum var útgáfuheimur prentmiðla hér á landi með talsvert öðrum hætti en hann er í dag.  Mest lestnu blöð landsins voru í sterkum tengslum við ákveðna stjórnmálaflokka og var eitt meginhlutverk þeirra að boða stjórnmálastefnu bakhjarla sinna. Fyrrnefndir þrír flokkar voru aðallega studdir af þremur dagblöðum, Morgunblaðinu, Tímanum og Alþýðublaðinu. Fjallað var um stofnfund Varðbergs í öllum blöðunum þremur.  Greinar um fundinn gerðu lítið annað en að fjalla í stuttu máli um hvað hefði átt sér stað á honum en í leiðurum bæði Morgunblaðsins og Tímans var farið lofsamlegum orðum um framtakið.

Sömu sögu var ekki að segja um skrif um Varðberg í Þjóðviljanum sem var málgagn Sósialistaflokks Íslands er studdi stefnumál ráðamanna í Sovétríkjunum.  Í grein sem birtist á æskulýðssíðu blaðsins þann 17. ágúst 1961 er félagið kallað Stikkersklúbburinn en er þá verið að vísa til Hollendingsins Dirks Stikkers sem var framkvæmdastjóri NATO 1961 – 1964.  Er Varðberg sagt fasistískt að eðli og uppruna, afsprengi þess versta sem þróast hefði með íslenskri æsku frá upphafi hins erlenda hernáms.

 

Hörð hugmyndafræðileg átök

Hér var tónninn sleginn í samskiptum Varðbergs við stuðningsmenn Sósialistaflokksins nokkð sem átti eftir að verða staðfest síðar á árinu.  Gott dæmi er fundur sem Varðberg og SVS héldu í Tjarnarbíói 2. nóvember 1961 en þar töluðu tveir flóttamenn sem flúið höfðu frá hernámssvæði Sovétríkjanna í Þýskalandi. Fyrr á árinu hafði Austur – Berlín verið girt af með múr.  Varð hann strax táknmynd alræðisstjórnanna í Austur – Evrópu og þetta nýttu skipuleggjendur fundarins til þess að kynna samkomuna.  Settu þeir upp gervimúr fyrir utan Tjarnarbíó kvöldið sem fundurinn var haldinn.  Líkt og fundarhaldarar vonuðust eftir vakti hann athygli og næstu daga á eftir birtust greinar um hann í Morgunblaðinu, Vísi og Tímanum.  Var í þeim sagt skilmerkilega frá því hvað ræðumenn hefðu haft að segja.  Greinarhöfundur Vísis gekk síðan skrefi lengra og greindi frá því að fullt hafi verið út úr dyrum á fundinum sem hafi verið mjög áhrifamikill.  Einn blett hafi þó borið á hann en sá hafi verið að maður nokkur úr forystuliði kommúnista í bænum hafi hafið hróp með blótsyrðum nokkuð sem sýni mikla taugaveiklun í þessum hópi.

Þjóðviljinn komst að annarri niðurstöðu enda leit hann múrinn í Berlín öðrum augum heldur aðrir.  Þannig segir í grein sem birtist á sömu opnu og Þjóðviljagreinin sem vísað var í hér að framan að Berlínarmúrinn hafi verið reistur með velþóknun íbúa Austur – Berlínar enda vilji þeir losna við áróður Vesturveldanna úr sínum heimahögun.  Flóttamennn frá borginni pössuðu illa við þessa skoðun og það viðhorf endurspeglast í grein sem skrifuð var um fundinn í Þjóðviljannn þann 5. nóvember.  Þar var sjónum ekki beint að viðfangsefni fundarins, þ.e. ófrelsinu í Austur – Þýskalandi, heldur þeim sem töluðu á fundinum. Að sögn greinarhöfundar var þar ekki alltaf sagt rétt frá og til að bæta gráu ofan á svart hefði Morgunblaðið ekki haft allt rétt eftir.

 

Sögulegur fundur

Barátta stuðningsmanna Varðbergs og andstæðinga þeirra fór ekki aðeins fram á síðum dagblaða.  Í samræmi við markmið Varðbergs um að kynna vestræna samvinnu fyrir þjóðinni ákvað stjórn samtakanna að halda fundi utan Reykjavíkur.  Var ákveðið að sá fyrsti færi fram á Selfossi 5. nóvember 1961.  Framsögumenn yrðu þrír og síðan átti að sýna heimildamyndina Ferð um Berlín.  Ólík afstaða til stöðu borgarinnar var helsta deilumál Austurs og Vesturs á þessum árum.  Fundurinn var auglýstur í blöðum og fréttu kommúnistar af honum.  Smöluðu þeir fólki á fundinnn og héldu undirbúningssellufundi í Hveragerði og víðar helgina áður.   Árangurinn var sá að um 25 hernámsandstæðingar komu á fundinn með rútu frá Reykjavík.  Mættu þeir þegar framsögum var að ljúka.  Báðu þeir um að fá að senda menn í ræðustól og var fallist á það.  Er leiðtogi hópsins steig í pontu var gerður mjög slæmur rómur að ræðu hans og var hann klappaður niður.  Í framhaldinu hrökklaðist hann úr ræðustól.  Síst betri undirtektir fengu þrír aðrir ræðumenn úr þessum hópi.  Þeir sátu hins vegar sem fastast á fundinum sem lauk ekki fyrr en klukkan fjögur um nóttina.  Þá hafði tillaga þeirra um að lögð yrði fram ályktun um að Ísland yrði kjarnavopnalaust var felld.

Frásögnin af fundinum á Selfossi er tekin úr Morgunblaðinu og Vísi.  Þjóðviljinn hafði aðra sögu að segja.  Slær blaðið upp sem fyrirsögn hvers vegna fundurinn hafi ekki viljað samþykkja tillögu hernámsandstæðinga.  Lýsing fundarins í greininni er síðan nánast þveröfug við það sem kemur fram í Morgunblaðinu og Vísi.  Lítill stuðningur hafi verið við vestræna samvinnu á honum og einungis vegna þess að fundarboðendur smöluðu stuðningsmönnum sínum á fundinn tókst þeim að halda undirtökunum þar.  Bæði Þjóðviljinn og hin blöðin tvö fara háðuglegum orðum um andstæðinga sína og er það til merkis um þann djúpstæða ágreining sem var um utanríkisstefnu Íslands á þessum árum

Stjórnmáladeilur voru aðeins einn angi af langri og fjölbreyttri sögu Varðbergs.  Hér verður hins vegar látið staðar numið enda tilgangur greinarinnar aðeins sá að rifja upp hvernig félagið hóf starfsemi sína fyrir sextíu árum síðan.

 

Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.

Heimildirnar sem voru notaðar eru auk bæklings frá NATO, NATO and Youth 1967, íslensk dagblöð frá árinu 1961 og viðtal í Þjóðmálum 2009.  Þeir sem vilja kynna sér íslensku heimildirnar betur er bent á timarit.is

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …