Home / Fréttir / Sérsveit nær olíuskipi frá laumufarþegum við strönd Englands

Sérsveit nær olíuskipi frá laumufarþegum við strönd Englands

_115070883_hi064023406

Nave Andromeda við bryggju í Southampton.

Breskir sérsveitarmenn fóru um borð í olíuskip undir fána Líberíu á Ermarsundi sunnudaginn 25. október og handtóku sjö laumufarþega sem ógnuðu áhöfninni. Lögregla óskaði eftir aðstoð sérsveitar hersins og þriggja mílna bannsvæði var sett umhverfis skipið, Nave Andromeda, sem var nálægt Isle of Wight undan suðurströnd Englands.

Sextán liðsmenn í Special Boat Service (SBS), með aðsetur í Poole á Suður-Englandi fóru um borð í skipið. Þeir eru sérþjálfaðir til aðgerða af þessu tagi. Með þeim voru kafarar úr breska flotanum.

Talið er að laumufarþegarnir séu frá Nígeríu og þeir hafi ætlað að leita hælis í Bretlandi. Þeir eru í haldi lögreglu í Hampshire.

Allir í áhöfn skipsins, 22, eru heilir á húfi. Skipinu var að lokinni aðgerðinni lagt við bryggju í Southampton.

Í BBC segir að sérsveitarmennirnir hafi ásamt kaförum sigið úr þyrlum um borð í skipið í skjóli nætur. Það tók þá níu mínútur að ná skipinu á sitt vald.

Gríska félagið Navios Tanker Management sem gerir út skipið segir að skipstjóri þess hafi óttast um öryggi áhafnarinnar vegna þess að framkoma laumufarþeganna hafi orðið sífellt ofbeldisfyllri. Þeir laumuðu sér um borð í Lagos í Nígeríu.

Útgerðin þakkaði breskum yfirvöldum fumlausa og tímanlega aðstoð þeirra í tilkynningu mánudaginn 26. október. Þar hrósaði Navios einnig skipstjóranum fyrir frábær viðbrögð hans og ró og allri áhöfn skipsins fyrir hugprýði við erfiðar aðstæður.

Eins og nafnið á Special Boat Service (SBS) – Sérsveit siglinga – gefur til kynna er hlutverk sveitarinnart að sinna verkefnum sem þessum. Hún er þaulæfð en leynd hvílir yfir starfi hennar eins og yfir Special Air Service (SAS) – Fleygu sérsveitinni – sem hefur aðsetur í Hereford. Báðar sérsveitirnar hafa í áranna rás tekist á við fjölmörg verkefni gegn hryðjuverkum og annarri vá, fyrir utan aðild í margvíslegum björgunarstörfum við erfiðar aðstæður.

Í frétt BBC segir að áhöfn skipsins hafi farið að verklagsreglum sem sé að finna í handbók undir heitinu BMP5 – Best Management Practice 5. útgáfa.

Áhöfnin leitaði skjóls í lokuðu öryggisrými skipsins og með því að loka sig þar inni gafst henni færi á að kalla eftir aðstoð án þess að hún væri sjálf óvarin.

Í ár hafa þúsundir manna reynt að komast ólöglega til Bretlands yfir Ermarsund frá Frakklandi. Greiða þeir oft smyglurum stórfé fyrir laumuferð á gúmmítuðrum yfir sundið sem er ein fjölfarnasta siglingaleið heims.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …