Home / Fréttir / Sérstaka Tucker Carlson-aðgerðin

Sérstaka Tucker Carlson-aðgerðin

Tucker Carlson ræðir við Vladimir Pútin.

Víða er rætt um viðtal sem bandaríski sjónvarpsmaðurinn Tucker Carlson átti við Vladimir Pútin Rússlandsforseta í vikunni og sýnt var á vefsíðu Carlsons. Hér birtist grein sem Galia Ackerman skrifaði á frönsku vefsíðuna Desk Russie og birtist þar laugardaginn 10. febrúar.

Galia Ackerman er fædd í Moskvu og hefur búið í Frakklandi síðan 1984. Eftir 25 ára starf hjá RFI, Radio France Internationale, helgar hún sig nú ritstörfum

 

Árið 2016, áður en Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna, voru rússnesk valdaelíta og áróðursmenn stjórnarinnar í uppnámi. Hillary Clinton þýðir stríð, Donald Trump þýðir friður, þetta voru slagorðin sem endurtekin voru endalaust í spjallþáttum sjónvarpsins. Þegar Trump var kjörinn skáluðu þingmenn í Dúmunni í kampavíni til að fagna frambjóðanda sínum, afskipti Rússa „hjálpuðu“ honum á sinn hátt.

Svipuð spenna hefur ríkt undanfarna daga eftir að tilkynnt var um komu Tuckers Carlsons til Moskvu, hann er einkavinur sömu elítu og áróðursmeistara. Tucker er rasisti og karlremba, andstæðingur bólusetninga og samsæriskenningasmiður, ofbeldisfullur andstæðingur Úkraínu og hliðhollur Rússum, dáður í mörg ár sem „vinsælasti blaðamaður/kynnir í sögu Bandaríkjanna“, „frábær gaur“ og „sjaldgæfur Bandaríkjamaður sem þú vilt ekki drepa“. Staða hans er svo sterk að áróðursmaður stjórnvalda númer eitt, Vladimir Soloviov, bauð honum í eigin spjallþátt eftir brottrekstur hans frá Fox News! Þegar öllu er á botninn hvolft eiga þeir tveir ýmislegt sameiginlegt, þar á meðal ögrandi og móðgandi hegðun í útsendingu.

Um leið og Carlson kom til Moskvu var orðrómur á kreiki um að hann myndi eiga stórkostlegt viðtal við Vladimir Pútín og rússneskir fjölmiðlar og framlengingar þeirra á Vesturlöndum máttu vart vatni halda. Carlson sjálfur vildi ekki láta sitt eftir liggja. Hann gaf út myndband þar sem hann útskýrði að Bandaríkjamenn vissu ekkert um Rússland og skildu ekki Rússlandsforseta. Þar sem hann hefði ekki veitt neinum erlendum blaðamönnum langt viðtal frá upphafi stríðsins gegn Úkraínu væri kominn tími til að kynna fáfróðum Bandaríkjamönnum rússnesku útgáfuna af atburðum, sagði Carlson.

Þeim sem þekkja starfshætti í Kreml er ljóst að viðtalið fékk Carlson að taka á þeim tíma sem talinn var heppilegastur fyrir forsetann. Rússlandsforseti hefur hingað til ekki veitt erlendum fjölmiðlum löng viðtöl vegna þess að hann telur sig ekki hafa haft neinn hag af því. Nú telja rússneskir ráðamenn hins vegar mikið í húfi fyrir sig. Kremlverjum er mikið í mun að Biden tapi af því að hann gerir sitt besta til að styðja Úkraínu. Það eru hins vegar átta langir mánuðir til  bandarísku forsetakosninganna og í millitíðinni verður, hvað sem það kostar, að koma í veg fyrir að Úkraínumenn fái 61 milljarð dollara og ný vopn sem bandaríska aðstoð ný vopn. Rússar eiga á hinn bóginn ekki annarra kosta völ en  að grípa vanþróaðra sprengjuodda og dróna frá Norður-Kóreu og Íran. Það er rétt að Úkraínumenn hafa ekki fengið nægan stuðning enn á Bandaríkjaþingi en þeir hafa ekki heldur tapað þar. Sérstöku Tucker Carlson-aðgerðinni er ætlað að virkja rússneska handlangara í Bandaríkjunum til að hafa áhrif á bandarískt almenningsálit.

Viðtalið, sem stóð í tvær langar klukkustundir, vakti sára tilfinningu. Það þýðir ekkert að skilgreina fjölda lyga og hálfsannleika í þessu samtali þar sem Pútín er eins og þolinmóður skólakennari sem segir skilningslausum nemanda sínum afskræmda sögu Rússlands og Úkraínu – án þess að nefna til dæmis Kósakkaríkin, sem mótuðu úkraínsku þjóðina, eða sjálfstæðisyfirlýsingu Úkraínu eftir fall keisarastjórnarinnar. Og hversu þungt vegur yfirlýsing Pútíns um að það hafi verið Pólverjar sem „neyddu Hitler“ til að hefja seinni heimsstyrjöldina, þegar alræmdi Molotov-Ribbentrop sáttmálinn leyfði Rússum að endurheimta „söguleg landsvæði“ sín!

Eftir sögustund fyrir Carlson sem var furðu lostinn yfir „alfræðiþekkingu viðmælanda síns“ fer Pútín í löngu máli yfir kvörtunarefni Rússa í garð Bandaríkjamanna: það voru þeir sem studdu hryðjuverkamennina í Kákasus, knúðu fram stækkun NATO til austurs og vildu aðild Úkraínu, sprengdu Nord Stream, ýttu undir „valdaránið“ árið 2014 í Kyív sem ógnaði Krím og olli sprengjutilræðum í Donbass. Aumingja Rússar neyddust því til að skerast í leikinn! Þetta er rökfræði í anda Hitlers um „fyrirbyggjandi aðgerðir“ til að varðveita frið í Evrópu!

Í öllu þvaðrinu má þó enn greina skýr skilaboð frá Pútínstjórninni. Í fyrsta lagi megum við alls ekki afhenda Úkraínumönnum vopn. Í öðru lagi er Rússum skylt að ljúka við að „afnazistavæða“ Úkraínu, sem þýðir, eins og við höfum vitað í langan tíma, ekki aðeins stjórnarskipti í Kyív, heldur hreint og beint að útrýmt skuli þjóðlegri stjórnmála- og menningarelítu eins og nú þegar hefur gerst á öllum hernumdu svæðunum. Loksins þegar þessu markmiði er náð er unnt að ganga til samninga. Vegna þess að refsiaðgerðirnar virka greinilega ekki er dollarinn að veikjast og því er tímabært að tekið sé höndum saman um að þvinga Úkraínumenn til að játa sig sigraða. Vesturlandabúar verða að íhuga hvernig þetta skuli gert án þess að þeir missi andlitið, er boðskapur stórmennisins.

Síðast en ekki síst spyr Carlson Pútín hvort hann vilji ekki sýna velvilja og leyfa Evan Gershkovich, bandarískum, blaðamanni og fréttamanni, sem var handtekinn í mars 2023 í Moskvu fyrir „njósnir“ að fara heim. Ó, við höfum sýnt góðan hug okkar á margvíslegan hátt, við getum hreinlega ekki gengið lengra, hvíslar einræðisherrann. En heyrðu, segir hann, það er þó samt leið til að „leyniþjónusturnar“ nái saman. Í evrópsku landi, sem er bandalagsríki Bandaríkjanna, afplánar maður dóm fyrir að hafa af þjóðerniskennd drepið óþokka í höfuðborg Evrópu. Þarna á hann við Vadim Krassikov, GRU-foringja, sem myrti í miðri Berlín árið 2019 Zelimkhan Khangochvili, gamlan tsjetsjenska vígamann, sem hafði leitað skjóls í Þýskalandi. Það sem Pútín leggur til er viðbjóðslegt: Hann vill samning milli Þýskalands og Bandaríkjanna um að skipt skuli á morðingja sem dæmdur er í lífstíðarfangelsi fyrir alsaklausan ungan bandarískan blaðamann sem er gísl í þeim tilgangi að skipta á honum og þessum illvirkja. En fyrir Pútín er þetta ekki fyrsta viðbjóðsverkið!

Tekst með sérstöku Tucker Carlson-aðgerðinni að bæta álit á Pútínstjórninni í Bandaríkjunum? Fyrstu viðbrögð benda til að viðtalið veki frekar reiði en velvild. Bandaríkjamenn þekkja kannski ekki smáatriðin í flókinni sögu Úkraínu, þeir vita þó að árás gegn sjálfstæðu landi er óþolandi. Þeir vita líka að þrá úkraínsku þjóðarinnar eftir frelsi og sjálfstæði er ekki að undirlagi CIA, heldur endurspeglar hún sál þessarar stoltu þjóðar.

Það má hins vegar draga lærdóm af sigurför Carlsons í Moskvu. Þegar nær dregur forsetakosningunum verðum við örugglega vitni að öðrum sérstökum aðgerðum Rússa til að skaða frambjóðanda demókrata í hættu og styðja, með  ráðum og dáð, hinn óútreiknanlega Trump. Á meðan því fer fram verða Evrópumenn að sýna stöðuga festu gagnvart Rússum og auka aðstoð sína við Úkraínumenn.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …