Home / Fréttir / Sergei Skripal útskrifaður af sjúkrahúsi eftir eiturefnaárás

Sergei Skripal útskrifaður af sjúkrahúsi eftir eiturefnaárás

Sergei Skripal
Sergei Skripal

Breskir læknar útskrifuðu fyrrverandi gagnnjósnarann Sergei Skripal föstudaginn 18. maí eftir rúmlega tveggja mánaða legu í sjúkrahúsi í Salisbury í suðvesturhluta Englands. Skripal og dóttir hans Yulia urðu þar fyrir eiturefnaárás 4. mars sl. Skripal (66 ára) lá vikum saman í dái.

Skripal hefur dvalist í Bretlandi síðan árið 2010 þegar Bretar fengu hann í skiptum fyrir rússneska njósnara. Hann starfaði á laun fyrir bresku leyniþjónustuna innan njósnastofnunar Rússa og var dæmdur árið 2006 fyrir landráð í Rússlandi.

Bresk yfirvöld saka Rússa um að hafa reynt að ráða hann og dóttur hans af dögum með eiturefnaárás.

Yulia (33 ára) var útskrifuð af sjúkrahúsi í apríl. Læknar veita ekki upplýsingar um hvað varð feðginunum til lífs í meðferð þeirra. Fulltrúar sjúkrahússins segja að áfram verði fylgst með heilsu Skripals þrátt fyrir útskriftina.

Cara Charles-Barkes, forstjóri Salisbury District Hospital, sagði „stórkostlegt“ að Skripal hefði náð sér svo vel að hann þyrfti ekki að liggja lengur í sjúkrahúsinu. Það væri aðeins fyrir atorku, alúð og færni starfsfólks sjúkrahússins að tekist hefði að bjarga honum, dóttur hans og lögreglumanni sem einnig veiktist vegna taugaeitursins.

Í The New York Times er vitnað í Richard Guthrie, efnavopna-sérfræðing sem starfaði hjá friðarrannsóknastofnuninni SIPRI í Stokkhólmi. Hann telur að árásin í Salisbury kunni að hafa misheppnast vegna aukaefnis sem sett hafi verið í eiturefnið sjálft. Þetta efni hafi verið notað til að tryggja að eitrið festist við húð fórnarlambanna. Lögregla telur að eitrið hafi verið fljótandi og því hafi verið klístrað á hurðarhún útidyra á húsi þeirra.

Guthrie telur að aukaefnið kunni að hafa hindrað að eitrið bærist í nægilega miklum mæli inn í blóðrás fórnarlambanna.

Alastair Hay, prófessor við Leeds-háskóla, segir að snertingin við eitrið hefði grandað feðginunum hefðu þau ekki fengið rétta læknismeðferð á réttum tíma. Einkennin hefðu fljótt verið greind á réttan hátt. Hann telur að sá sem gerði árásina hafi vænst þess að þau gæfu upp andann heima hjá sér. Hefðu þau haldið sig heima hefðu þau ekki fundist meðvitundarlaus á bekk í miðbæ Salisbury í tæka tíð til að bjarga lífi þeirra.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …