Home / Fréttir / Sergei Lavrov segir engan nýjan Reykjavíkurfund á döfinni

Sergei Lavrov segir engan nýjan Reykjavíkurfund á döfinni

Sergei Lavrov
Sergei Lavrov

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, efndi til árlegs blaðamannafundar síns í Moskvu mánudaginn 16. janúar. Þar sagði hann afdráttarlaust að ekki hefði verið rætt um það að Vladimír Pútín Rússlandsforseti mundi hitta Donald Trump á Íslandi fljótlega eftir að Trump tekur við embætti Bandaríkjaforseta 20. janúar 2017.

„Ekkert slíkt hefur verið rætt. Það er ekki rétt,“ sagði utanríkisráðherrann daginn eftir að breska blaðið The Sunday Times hafði birt forsíðufrétt um að á bak við tjöldin væri unnið að undirbúningi fundar forsetanna í Reykjavík í stíl við fund Ronalds Reagans og Mikhaíls Gorbatsjovs í Höfða í október 1986.

Í frétt Jyllands-Posten um blaðamannafund Lavrovs segir að í Moskvu séu menn almennt ekki hrifnir af því sem Trump hefur slegið fram um að Bandaríkjastjórn falli frá viðskiptaþvingunum sínum ef Rússar minnki kjarnorkuherafla sinn.

„Ég hef ekki séð neina tillögu um að skipta á refsiaðgerðum og afvopnun,“ sagði Sergei Lavrov (66 ára) á blaðamannafundinum. Hann hefur verið utanríkisráðherra í tæplega 13 ár.

Blaðamaður Jyllands-Posten segir að komi til nýs samnings um afvopnunarmál vilji Rússar tengja hann ýmsum öðrum atriðum, þar á meðal eftirliti með nýrri kynslóð venjulegra vopna – svonefndum ofurhraða-vopnum sem þjóta með mörg þúsund kílómetra hraða á klukkustund – eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna í Evrópu og hervæðingu geimsins.

Meira jafnvægi er mill Rússlands og NATO í kjarnorkuvopnum en þegar litið er til venjulegra vopna og þess vegna segja sérfræðingar í Moskvu að rússneskir ráðamenn hafi lítinn áhuga á að minnka kjarnorkustyrk sinn.

Sergei Lavrov var hóflega bjartsýnn þegar hann ræddi samstarfið við væntanlega stjórn Bandaríkjanna. Rússar telja að hún verði einbeittari gegn hryðjuverkamönnum og um efnahagsleg samskipti en Barack Obama hefur verið.

„Við munum eiga samskipti við fólk sem notar ekki tímann til að flytja siðaprédikanir,“ sagði Lavrov.

Hann gagnrýndi harðlega tilraunir til að lýsa Donald Trump sem Rússavini eða undir stjórn frá Moskvu, beint eða óbeint.

„Þetta eru alvarlegar ásakanir sem eru lítillækkandi fyrir Evrópubúa og þann hluta Bandaríkjamanna sem standa að þeim,“ sagði Sergei Lavrov.

Brátt kemur að því að nýir ráðamenn í Washington taki ákvarðanir um framkvæmd stefnunnar í utanríkis- og öryggismálum. Þar má meðal annars nefna fjölgun bandarískra hermanna í Póllandi og Eystrasaltslöndunum auk Noregs. Rússar mótmæla öllum skrefum sem stigin eru í þessa átt.

Blaðamaður Jyllands-Posten segir að Sergei Lavrov hafi sett upp alvörusvip þegar talið barst að varðstöðu NATO í Eystrasaltsríkjunum. „Þetta er slæmt. Það gleður engan að sjá þetta,“ sagði hann.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …