Home / Fréttir / Sérfræðingar segja hugsanlegt að Pútin beiti svikabrögðum

Sérfræðingar segja hugsanlegt að Pútin beiti svikabrögðum

Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur birt þessa mynd af kjarnorkuknúnu tundurskeyti.
Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur birt þessa mynd af kjarnorkuknúnu tundurskeyti.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti hafði í hótunum við Vesturlönd í stefnuræðu sinni fimmtudaginn 28. febrúar. Hann lýsti þar nýjum rússneskum vopnum, þar á meðal „ósigrandi“ langdrægri, kjarnorkuknúinni stýriflaug og kjarnorku-tundurskeyti sem gætu brotist í gegnum öll varnarkerfi Bandaríkjanna.

Pútín sýndi meðal annars myndskeið til að lýsa hvernig eldflaug búin mörgum kjarnaoddum næði til Flórída, helgardvalarstað Donalds Trumps í Mar-a-Largo. The New York Times (NYT) segir að ræða Pútíns hafi stigmagnað hernaðarþáttinn í spenntum samskiptum Bandaríkjamanna og Rússa. Vegna þessa spái margir að nú hefjist nýtt kjarnorkuvopnakapphlaup.

Sumir sérfræðingar telja að vísu að Pútín hafi stundað blekkingarleik með því að sýna þessi vopn. Hann hafi af klókindum ætlað að sýna veikleika í bandaríska eldflaugavarnarkerfinu. Það er reist á því að óvina-eldflaugum sé skotið hátt í himinhvolfið og unnt sé að eyðileggja þær þar.

Pútín lýsti nýju rússnesku vopnunum þannig að þau flygju torséð í lítilli hæð, langa leið á miklum hraða – svo hratt að ekki ynnist tími til að verjast þeim.

NYT segir að ræðu Pútíns hafi einkum verið ætlað að ala á ættjarðarást Rússa í aðdraganda þess að þeir greiða atkvæði í forsetakosningunum sunnudaginn 18. mars. Pútín hafi viljað minna á eigið ágæti við gæslu hagsmuna þjóðarinnar. Hann er öruggur með sigur enda í raun einn í framboði.

Pútín sagði að hervæðinguna sem hann boðaði mætti rekja til ákvarðana Bandaríkjamanna. Hann gaf til kynna að ungum, rússneskum hátæknisnillingum hefði tekist að úrelda varnarkerfi Bandaríkjamanna. Þeir hefðu með leynd þróað og gert tilraunir með ný vopn, þar á meðal kjarnorkuknúna eldflaug sem senda mætti um heim allan og stýra henni fram hjá varnarkerfum. Sagði Pútín að nú hæfist smíði þessara flauga að loknum tilraunum með þær. Með þeim yrðu þáttaskil í framleiðslu slíkra vopna.

Forsetinn sýndi myndskeið þar sem flaugin fór yfir fjallshrygg og sveigði fram hjá hindrunum á Suður-Atlantshafi áður en henni var snúið í norður við Hornhöfða á Suður-Ameríku og stefnt að vesturströnd Bandaríkjanna.

NYT minnir á að svikabrögð séu þungamiðja í núverandi hernaðarstefnu Rússa. Segir blaðið að þess vegna séu uppi vangaveltur um hvort trúa beri orðum Pútíns um tilvist vopnanna. Bandarískir embættismenn segja að Rússar ráði ekki enn yfir kjarnorkuknúinni stýriflaug hvað sem Pútín segi. Slík flaug hafi hrapað við tilraunir á norðurslóðum.

Stýriflaugin var meðal fimm vopna sem Pútín kynnti í ræðu sinni og sýndi með myndskeiðum á risavöxnum skjám. Hann hótaði að nota þessi vopn auk eldri rússneskra kjarnorkuvopna gegn Bandaríkjunum og Evrópu yrði ráðist á Rússland.

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …