Home / Fréttir / Sendiherra Rússa á Íslandi tekur upp hanskann fyrir GRU

Sendiherra Rússa á Íslandi tekur upp hanskann fyrir GRU

Ákærur á hendur 7 GRU-njósnurum birtar í Washington 4. október 2018.
Ákærur á hendur 7 GRU-njósnurum birtar í Washington 4. október 2018.

Anton Vasiliev, sendiherra Rússa á Íslandi, ritar grein í Morgunblaðið fimmtudaginn 4. október í tilefni af 75 ára afmæli stjórnmálasambands Rússlands og Íslands. Í greininni tekur sendiherrann sér fyrir hendur að hvítþvo rússnesk stjórnvöld af gagnrýni sem þau hafa sætt frá innlimun Krímskaga í mars 2014. Sendiherrann segir meðal annars:

„Ljóst er að samábyrgð Vesturlanda, sem stuðluðu með beinum hætti að valdaráni í Úkraínu í trássi við stjórnarskrá landsins árið 2014 í því skyni að veikja landfræðipólitíska stöðu Rússlands, hefur dregið Ísland inn í vítahring tilhæfulausra ásakana í garð Rússlands, um það sem Rússland hefur aldrei framið (»innlimun« Krímskaga, tortímingu MH17, flutning hermanna og hergagna til austurhluta Úkraínu, misnotkun lyfja í íþróttum, íhlutun í kosningar, Skrípal-feðgin o.fl.). Slíkar ásakanir eru til þess fallnar að innprenta almenningi á Vesturlöndum, með nútímaaðferðum fjölmiðlaáróðurshernaðar, þá fráleitu samsæriskenningu að Rússland sé »brotlegt gegn alþjóðalögum«, »árásaraðili« og »ógnvaldur«. Ásakanirnar sjálfar eru aðalatriði en staðreyndir og sannanir óþarfar. Allt sem fellur ekki að samsæriskenningunni er afgreitt sem rússneskur áróður. Allt er annaðhvort svart eða hvítt. Rétt eins og karpandi börn sem finna að rökin eru á þrotum og grípa í örþrifum til raka á borð við: Þú ert svo vondur að þú ert ekki svaraverður, þú ert með lægstu einkunn í hegðun, ekki satt? Rétt eins og þjófur sem hrópar manna hæst »grípið þjófinn!« og bendir á annan til að beina athyglinni frá eigin glæp.“

Gamalkunnar röksemdir

Í þessum orðum birtast gamalkunnar röksemdir Kremlverja þegar þeir andmæla því sem lagt er fram utan Rússlands til sönnunar á lögbrotum þeirra hvort sem er á alþjóðalögum, lögum gegn lyfjamisnotkun í íþróttum eða refsilögum.

Sama dag og grein sendiherrans birtist stigu vestræn stjórnvöld lengra en áður með birtingu upplýsinga sem sýna ólöglegar athafnir útsendara GRU, leyniþjónustu rússneska hersins, víða á Vesturlöndum.

Bresk yfirvöld hafa dregið fram óyggjandi sannanir um tilraun tveggja GRU-manna til að drepa Sergei Skripal, fyrrv. rússneskan njósnara, og Yuliu, dóttur hans, með eitri í Salisbury á Suður-Englandi í mars 2018.

Í apríl 2018 gerði hollenska lögregla fjóra Rússa, GRU-menn, brottræka frá Hollandi þegar þeir bjuggu sig undir í Haag að gera netárás eða tölvuinnbrot í alþjóðlega eftirlitsstofnun með banni við efnavopnum sem hafði Skripal-málið til meðferðar.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið birti fimmtudaginn 4. október ákærur á hendur sjö rússneskum útsendurum GRU sem sakaðir eru um óvinveittar netaðgerðir gegn Bandaríkjunum og bandalagsþjóðum þeirra. Í ákærunum eru meðal annars nefndar aðgerðir sem gripið var til í hefndarskyni gegn embættismönnum og stofnunum sem afhjúpuðu ríkisrekna lyfjamisnotkun Rússa á ólympíuleikum og til að ráðast inn í tölvur rannsóknastofu þar sem unnið var að greiningu vegna ásakana um að Rússar og Sýrlendingar beittu efnavopnum í átökunum í Sýrlandi.

Tölvuþrjótarnir sem kalla sig Fancy Bear og sakaðir eru um að hafa ráðist inn í tölvur stjórnar bandaríska Demókrataflokksins í forsetakosningabaráttunni árið 2016 eru taldir þeir sömu og réðust á tölvukerfi World Anti-Doping Agency (WADA), það er alþjóðastofnunarinnar gegn lyfjamisnotkun í íþróttum.

Viðbrögð af hálfu NATO

Tveggja daga fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel fimmtudaginn 4. október. Í tilkynningu um fundinn segir að þar hafi ráðherrunum verið skýrt frá misheppnaði aðför Rússa að efnavopnastofnuninni í Haag. Á blaðamannafundi sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að Rússar stofnuðu til óvinaaðgerða í netheimum með árásum um heim allan. NATO mundi herða varðstöðu sína gegn slíkum árásum með því að styrkja varnir sínar og fælingarmátt á þessu sviði.

Stoltenberg þakkaði þeim bandalagsríkjum sem hefðu lagt NATO lið við að styrkja hæfni sína í netheimum. Hann sagði að á þennan hátt yrði tryggt að NATO stæði eins vel að vígi á þessu nýja sviði og hernaðarlega á sjó, landi og í lofti.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …