Home / Fréttir / Seigla Úkraínumanna öflugasta vopnið gegn ofurefli rússneska innrásarliðsins

Seigla Úkraínumanna öflugasta vopnið gegn ofurefli rússneska innrásarliðsins

Rússneska umsátursliðið um Úkraínu fékk kl. 02.55 að íslenskum tíma aðfaranótt 24. febrúar fyrirmæli frá Vladimir Pútin Rússlandsforseta um „sérstaka hernaðaraðgerð“ í Donbass í austurhluta Úkraínu. Síðan hefur herlið Rússa sótt yfir landamæri Úkraínu á ýmsum stöðum. Sprengjur hafa fallið í nokkrum borgum og bæjum Úkraínu, þar á meðal höfuðborginni Kiev. Í birtingu sögðust Rússar hafa eyðilagt loftvarnakerfi við flugherstöðvar Úkraínu.

Talið er að um 190.000 rússneskir hermenn séu innrásar- og umsátursliðinni. Þá er rússneskur herfloti á Svartahafi með landgönguskipum úr Norðurflota og Eystrasaltsflota Rússa. Þrjár rússneskar freigátur búnar stýriflaugum eru í nágrenni hafnarborganna Odessa og Marioupol í Úkraínu. Auk þeirra er floti korvetta á svipuðum slóðum. Talið er að Rússar hafi flutt um 1.500 orrustuþotur í nágrenni Úkraínu og þeim megi beita með skömmum fyrirvara.

Her Úkraínu hefur ekki mikla burði til loft- eða sjóhernaðar. Rússar eyðilögðu herflota Úkraínu árið 2014 þegar þeir hernámu Krímskaga. Úkraínumenn ráða aðeins yfir um 120 orrustuþotum, flestar eru af gerðinni MiG-29, þá eiga þeir

Soukhoi-24 og Soukhoï-25-vélar, allar frá Sovéttímanum. Rússar geta því athafnað sig að vild í lofthelgi Úkraínu.

Það er á landi sem her Úkraínu getur veitt rússneska hernum viðnám. Rússar halda úti um milljón manna her og í varaliði þeirra eru um tvær milljónir manna. Í landher Úkraínu eru 145.000 hermenn, við hlið fasta hersins eru 102.000 manna minna þjálfað lið (e. paramilitary), 8.000 eru á verði við flugvelli og 900.000 varaliðar. Landherinn ber sterkan svip af skipulagi sovéska hersins á árum áður og hann ræður yfir skriðdrekum og brynvörðum farartækjum. Þá ráða Úkraínumenn yfir nokkrum loftvarnakerfum.

Þegar Rússar beittu her sínum gagnvart Úkraínu árið 2014 greip her Úkraínu ekki til vopna. Síðan hefur heraflinn verið endurskipulagður og segja sérfræðingar ekki óhugsandi að Úkraínumenn beiti skæruhernaði gegn innrásarliði Rússa. Þótt slíkur hernaður leiði ekki til mikils tjóns fyrir Rússa grafi hann að líkindum undan baráttuvilja rússneskra hermanna. Til að bregðast við þessari hættu eru þjóðvarðliðar fremst í innrásarher Rússa en þeir hafa verið þjálfaðir til að halda heimamönnum á herteknum svæðum í skefjum, berjast við andspyrnuhópa.

Úkraínumenn binda mestar vonir við almennt baráttuþrek og seiglu þjóðarinnar allrar. Hún láti ekki traðka á sér eða brotni undan kúgunarvaldi.

Þá ráða Úkraínumenn yfir vopnasmiðjum sem þeir geta virkjað.

Undanfarið hafa bandamenn Úkraínu látið stjórnvöldum í té hergögn. Í lok janúar fengu þeir 300 Javelin-skotflaugar frá Bandaríkjamönnum i framhaldi af því sem þeir höfðu áður fengið. Bretar hafa látið þeim í té vopn framleidd í Svíþjóð gegn skriðdrekum, NLAW. Litháar og Eistar hafa fært þeim Stinger-flaugar nú í febrúar og gagn-skriðdrekavopn, AT4. Undanfarnar vikur hafa alls um 2.000 tonn af hergögnum verið flutt til Úkraínu sð sögn varnarmálaráðherra landsins.

Heimild: Le Figaro

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …