Home / Fréttir / Segir Rússa stofna til stríðs við NATO

Segir Rússa stofna til stríðs við NATO

Stefano Sannino

Stefano Sannino, æðsti embættismaður utanríkisþjónustu ESB (e. Secretary General of the European Union’s European External Action Service), sagði á blaðamannafundi í Tokyo föstudaginn 27. janúar að Rússar hefðu fært stríð sitt við Úkraínu á „á annað stig“ með því að ráðast af miskunnarleysi á almenna borgara og borgaraleg mannvirki.

Þessar hernaðaraðgerðir Rússa eru að mati Sanninos undirrót ákvarðana Þjóðverja og Bandaríkjamanna um að senda háþróaða orrustuskriðdreka til Úkraínu.

Gagnrýndi hann Vladimir Pútin Rússlandsforseta fyrir að stofna til styrjaldar gegn NATO og Vesturlöndum. ESB-embættismaðurinn sagði að Pútin hefði „horfið frá fyrirætlunum um sérstakar aðgerðir til þess nú að heyja stríð við NATO og Vesturlönd“.

Hann taldi að Þjóðverjar og Bandaríkjamenn sendu skriðdreka á vettvang til að styrkja varnir Úkraínumanna í stríðinu frekar en að gera þá að árásaraðila.

„Ég tel að það sem síðast hefur gerst þegar litið er vopnasendinga sé ekki annað en þróun á ástandinu og viðbrögð við því hvernig Rússar hafa fært stríðið á annað stig,“ sagði Sannino. Hann benti á að Rússar gerðu „miskunnarlausar árásir“ á almenna borgara og borgir en ekki lengur á hernaðarleg skotmörk.

Hann sagði að ESB væri ekki að færa stríðið á annað stig „heldur vill sambandið stuðla að björgun mannslífa og að Úkraínumenn geti varist þessum villimannslegu árásum“.

Sannino hefur átt fundi í Japan um frekari samvinnu ESB við Japani og aðrar Kyrrahafsþjóðir í Asíu.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …