
Angela Merkel Þýskalandskanslari ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs sem formaður Kristilega demókrataflokksins (CDU) á flokksþingi í desember. Nú tveimur vikum eftir yfirlýsingu Merkel tilkynnir Horst Seehofer, innanríkisráðherra og formaður Kristilega sósíalflokksins (CSU) í Bæjaralandi að hann ætli ekki heldur að gefa kost á sér til endurkjörs í flokki sínum. Seehofer ætlar hins vegar að sitja áfram sem innanríkisráðherra. Sama gerir Merkel sem kanslari.
Seehofer kynnti ákvörðun sína mánudaginn 12. nóvember á fundi í Bautzen í Saxlandi. Um helgina skýrði hann samstarfsmönnum sínum innan CSU frá áformum sínum. Orðrómur var um að hann ætlaði einnig að biðjast lausnar sem ráðherra en Seehofer sagði svo ekki vera.
Hann sagði að fyrir sér vekti að stuðla að endurnýjun innan CSU. „Aðalástæðan“ væri ekki lítið fylgi CSU í kosningunum í Bæjaralandi í október. Ný formaður verður kjörinn á flokksþingi snemma á næsta ári.
Seehofer er 69 ára og hefur verið formaður CSU í áratug. Hann var þar til fyrir tiltölulega skömmu forsætisráðherra Bæjaralands en vék úr því embætti fyrir Markus Söder þegar hann settist í ríkisstjórn Merkel. Söder er talinn líklegur eftirmaður Seehofers þótt sambandið milli þeirra sé stirt.
CSU tapaði 10 stigum og meirihluta í þingi Bæjaralands í kosningunumn í október, flokkurinn fékk 37,2%.