Home / Fréttir / Sátt í stjórn Merkel um útlendingamál – Seehofer og Kurz vilja loka flóttaleiðinni yfir Miðjarðarhaf

Sátt í stjórn Merkel um útlendingamál – Seehofer og Kurz vilja loka flóttaleiðinni yfir Miðjarðarhaf

Horst Seehofer og Sebastiajn Kurz í Vínarborg 5. júlí 2018.
Horst Seehofer og Sebastiajn Kurz í Vínarborg 5. júlí 2018.

Samstaða hefur myndast í þýsku ríkisstjórninni undir forystu Angelu Merkel um stefnuna í útlendingamálum. Jafnaðarmenn höfðu fyrirvara á samkomulagi leiðtoga kristilegu stjórnarflokkanna um útlendingamál. Fimmtudaginn 5. júlí náðist hins vegar samstaða milli allra stjórnarflokkanna þriggja um málið.

Í samkomulagi stjórnarflokkanna er fallið frá því að koma á fót svonefndum viðkomumiðstöðvum fyrir hælisleitendur við landamæri Þýskalands þeirra í stað verði „viðkomuferli í lögreglustöðvum“ sagði Horst Seehofer innanríkisráðherra við blaðamenn.

Andrea Nahles, leiðtogi jafnaðarmanna (SPD), sagði að ekki yrði um neinar einhliða aðgerðir gegn hælisleitendum að ræða heldur yrði afgreiðslu hraðað innan ramma Dublin-reglnanna sem fjalla um meðferð hælismála á Schengen-svæðinu.

Verði ekki unnt að fara með hælisleitendur á „viðkomu-dvalarsvæði· á flugvellinum í München mun sambands-lögreglan fara með mál þeirra.

Áður en sáttin inna þýsku ríkisstjórnarinnar var kynnt fimmtudsginn 5. júlí fór Horst Seehofer, innanríkisráðherra  til Vínarborgar og hitti Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis. Þeir vilja loka meginleið flótta- og farandfólks yfir Miðjarðarhaf. Innanríkisráðherrar Austurríkis, Ítalíu og Þýskalands ræða málið í næstu viku.

Sögðu Kurz og Herbert Kickl, innanríkisráðherra Austurríkis, að ekki yrði unnt að gera austurrísk stjórnvöld ábyrg fyrir flótta- og farandfólki sem kæmi frá Grikklandi eða Ítalíu og Þjóðverjar höfnuðu við landamæri sín.

Seehofer tók undir þetta og sagði: „Hvorki nú né í framtíðinni munum við segja Austurríkismenn ábyrga fyrir því sem hvílir á Ítölum og Grikkjum. Það var ekki ætlun mín í dag og verður ekki í framtíðinni.“

Þá lýstu þeir Kurz og Seehofer áhuga á að loka svonefndri suðurleið inn í Evrópu, það er draga úr ferðum yfir Miðjarðarhaf.

Samkomulag náðist um útlendingamálin náðist milli kristilegu stjórnarflokkanna, CDU og CSU, í Þýskalandi seint að kvöldi mánudags 2. júlí. Í henni fólst að komið yrði á sérstökum viðkomumiðstöðvum fyrir hælisleitendur við þýsku landamærin.

Sátt varð þó ekki  að stefnu þýsku ríkisstjórnarinnar,  fyrr en þriðji stjórnarflokkurinn, Jafnaðarmannaflokkurinn, SPD, hafði gefið samþykki sitt. SPD lýsti andstöðu við slíkar viðkomumiðstöðvar  fyrir hælisleitendur við gerð stjórnarsáttmálans á liðnum vetri en stjórnin var mynduð 14. mars 2018. Þessi sátt náðist fimmtudaginn 5. júlí með því að falla frá sérstökum viðtökumiðstöðvum en taka upp nýtt hraðvirkt ferli við meðferð mála í lögreglustöðvum.

Innanríkisráðherrar Austurríkis, Ítalíu og Þýskalands ætla að hittast í austurrísku borginni Innsbruck í næstu viku. Kurz sagði að tilgangurinn með þeim fundi væri „að móta aðgerðir til að loka Miðjarðarhafsleiðinni“. Hann lagði áherslu á að stöðva yrði straum fólks eftir suðurleiðinni til Evrópu.

Þýski innanríkisráðherrann viðurkenndi að þýsk stjórnvöld ættu enn eftir að ná samkomulagi við ESB-ríki um að þau tækju aftur við þeim sem neitað yrði um hælisvist í Þýskalandi og lausn á þeim vanda kynni að krefjast „erfiðra samninga“.

Til marks um þessa erfiðleika má nefna að Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, var í heimsókn hjá Merkel í Berlín fimmtudaginn 5. júlí og sagði ekki koma til álita að ungverska ríkisstjórnin semdi um að taka við hælisleitendum frá Þýskalandi.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …