Home / Fréttir / Seðlabankastjóri Finnlands vill norska NATO-leið

Seðlabankastjóri Finnlands vill norska NATO-leið

Olli Rehn, seðlabankastjóri Finna.

Olli Rehn, seðlabankastjóri Finnlands, segir í samtali við blaðið Helsingin Sanomat sunnudaginn 27. mars í tilefni af 60 ára afmæli sínu, að Finnar eigi að ganga í NATO með svipaðri lausn og Norðmenn hafi gert. Hann segir einnig að Evrópusambandið eigi að undirbúa bann við orkukaupum af Rússum jafnvel þótt það verði til vandræða fyrir Þjóðverja og Austur-Evrópulönd.

„Varnarbandalag að fyrirmynd Norðmanna væri skynsamlegur kostur fyrir Finnland,“ sagði Rehn. „Í því fælist að engin kjarnorkuvopn eða engar varanlegar herstöðvar NATO yrðu í Finnlandi. Varnarlíkan í þessari mynd ógnaði engum og á öllum skynsamlegum forsendum ættu forystumenn Rússlands einnig að átta sig á því.“

Strax árið 1994 hvatti Rehn til þess að Finnar gengju í NATO í grein sem hann birti í virtu tímariti um utanríkismál, Ulkopolitiikka. Þar nefndi hann Úkraínu sem „púðurtunnu“.

Rehn var þá dósent í stjórnmálafræði við Helsinki-háskóla og þingmaður Miðflokksins. Rehn sat í framkvæmdastjórn ESB í áratug sem fulltrúi Finnlands og fór meðal annar með efnahags- og peningamál þar árin 2010-14. Síðan var hann efnahagsráðherra Finnlands 2015-2016 þegar hann varð seðlabankastjóri.

Í samtalinu sagði Rehn að ESB ætti að minnka orkukaup við Rússa og loka fyrir þau til að takmarka útflutningstekjur Rússa og þar með hætta að fjármagna „stríðsvél Pútins“.

Hann sagði að í ár væri talið að orkukaup ESB af Rússum jafngiltu um 600 milljörðum evra á núvirði, þrisvar sinnum hærri fjárhæð en árið 2020.

„Hækkunin á orkuverði minnkar beint kaupmátt evrópskra neytenda og þessir 600 milljarðar evra jafngilda 4% af vergri landsframleiðslu ESB,“ sagði seðlabankastjórinn.

 

Heimild YLE.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …