
Ríkisstjórn Austurríkis tók 1. júlí við forystu í ráðherraráði ESB. Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, er formaður mið-hægriflokksins ÖVP. Í samsteypustjórn hans eru einnig ráðherrar í FPÖ, flokki til hægri við ÖVP.
FPÖ á samstarf við ýmsa uppnámsflokka í Evrópu eins og flokk Marine Le Pen í Frakklandi og Bandalagið á Ítalíu. Formaður þess, Matteo Salvini innanríkisráðherra, hefur lokað Ítalíu fyrir flótta- og farandfólki sem kemur yfir Miðjarðarhaf frá Norður-Afríku.
Franska blaðið Le Monde fagnar forystu Kurz og félaga innan ESB af varúð og segir að heima fyrir vilji hann að sú mynd sé dregin af sér að hann (31 árs) sé nú einn helsti ráðamaðurinn innan ESB. Til marks um það sé forsíða á fríblaðinu Heute í Austurríki föstudaginn 29. júní, daginn eftir átakafund um útlendingamál í leiðtogaráði ESB. Blaðið birti forsíðumynd af Kurz og Emmanuel Macron Frakklandsforseta með textanum: „Evrópusambandið fellst á áætlun Sebastian Kurz um miðstöðvar hælisleitenda.“ Segir Le Monde Kurz gangi vel að ávinna sér þessa ímynd enda sé litið á hann sem pólitískt Wunderkind – undrabarn.
Þegar Sebastian Kurz ræddi við blaðamenn eftir leiðtogaráðsfundinn í Brussel fagnaði hann því að ráðið hefði samþykkt ýmsar af tillögunum sem hann hefði borið árum saman fyrir brjósti og miðuðu að því að takmarka fjölda hælisleitenda í Evrópu. „Það er okkur gleðiefni að athygli beinist loks að vernd ytri landamæranna. Það er mikilvægt skref í rétta átt.“
Le Monde segir að Sebastian Kurz hafi tekist að fá vestræna lýðræðissinna til að samþykkja tillögur lengst frá hægri í útlendingamálum og frá andófsflokkum í austurhluta Evrópu án stórdeilna á opinberum vettvangi og undir merkjum ESB. Þetta séu nýir stjórnarhættir. Sebastian Kurz hafi orðið kanslari í desember 2017 og sagt að hann væri „brú“ milli mið-hægrimanna og þeirra sem skipuðu sér enn lengra til hægri.