
Í liðinni viku ákváðu stjórnendur rússneska orkurfyrirtækisins Gazprom að minnka gasflæðið um Nord Stream 1 leiðsluna til Þýskalands niður í 20% af flutningsgetu leiðslunnar. Báru þeir fyrir sig að ekki væri unnt að flytja meira magn vegna bilunar á túrbínu en viðgerð og afhending hefði tafist.
Olaf Scholz Þýskalandskanslari heimsótti fyrirtækið Siemens, framleiðanda túrbínunnar, miðvikudaginn 3. ágúst og skoðaði túrbínuna sem sögð er valda þessum vandræðum. Eftir að hafa kynnt sér málið sagði Scholz að „ekker væri að“ túrbínunni og hana mætti senda strax til Rússlands hefði Gazprom áhuga á að fá hana.
Túrbínan bíður afhendingar í geymslu Siemens í bænum Mülheim an der Ruhr.
„Þessi hlutur er í fullkomnu lagi. Það er unnt að setja hann strax á sinn stað,“ sagði Scholz þar sem hann stóð fyrir framan túrbínuna. „Hún er hérna. Tilbúin að fara. Nú á okkar tímum er mjög einfalt mál að flytja hana. Það þarf ekki annað en segja: Vinsamlega sendið hana! Það má nota hana hvenær sem er. Það hindrar ekkert að hún sé flutt til Rússlands – annað en að rússnesku viðtakendurnir segist vilja fá túrbínuna og veita tollyfirvöldum nauðsynlegar upplýsingar vegna flutnings til Rússlands,“ sagði kanslarinn:
„Öll önnur leyfi eru hér – það á við um leyfið frá Þýskalandi, leyfið frá Evrópusambandinu, frá Bretlandi, frá Kanada. Það eru engin vandamál.“
Sebastian Fischer, talsmaður kanslarans, sagði að með orðum sínum hefði Scholz „afhjúpað blekkingar Pútins“.
Gazprom hefur hvað eftir sagt að af hálfu fyrirtækisins hefði verið þrýst Simens með kröfu um skjöl og skýringar. Fyrir viku sagðist Gazprom ekki sætta sig við gögnin sem fyrirtækið hefði fengið.