
Innanríkis- og dómsmálaráðherrar Schengen-ríkjanna hittust á aukafundi í Brussel föstudaginn 20. nóvember og samþykktu að herða athuganir á ytri landamærum. Þá hefur verið rætt um sameiginlega njósnamiðstöð ESB en tillögur hafa ekki enn verið lagðar fram um það efni segir í frétt þýsku fréttastofunnar DW um fundinn.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra sat fundinn og sagði á vefsíðu innanríkisráðuneytisins að honum loknum að tvennt sneri að Íslandi:
,,Það eru í fyrsta lagi aðgerðir til að styrkja eftirlit á ytri landamærum, svo sem að nýta meira heimildir um ókerfisbundið eftirlit á landamærum, meðal annars á borgurum ríkja Evrópusambandsins og borgara á Evrópska efnahagssvæðinu. Í öðru lagi er það bætt skráning í Schengen-upplýsingakerfið, þar á meðal skráning fingrafara og mynda vegna grunaðra hryðjuverkamanna,“ segir ráðherra og bendir á að hér sé ekki um viðbótarheimildir að ræða heldur einungis það að nýta frekar þær heimildir sem liggi fyrir,“ segir á vefsíðunni.
DW segir að ráðherrarnir vilji hraða ákvörðunum um miðlun upplýsinga um flugfarþega innan Evrópu milli Schengen-ríkjanna. Þá vilji þeir sporna við flutningi vopna milli landa og taka upp stórhertar reglur varðandi eftirlit með fólki sem fer yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins, gildir þetta jafnt fyrir þá sem hafa EES-gild vegabréf sem aðra.
Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, sagði að fundinum loknum: „Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt að kynna fyrir áramót áætlun til að breyta landamærareglum Schengen og heimila skipulegt skyldueftirlit á öllum ytri landamærum gagnvart öllum ferðamönnum, þar á meðal þeim sem hafa rétt til frjálsrar farar. Þetta er lykil-breyting.“
Ráðherrarnir komu sér einnig saman um hertar reglur til bráðabirgða þar til nýjar Schengen-reglur hafa verið formlega samþykktar. „Við höfum talað nóg. Við verðum að láta til skarar skríða. Um það er ekki val, það er skylda,“ sagði Etienne Schneider, ráðherra frá Lúxemborg, sem stjórnaði ráðherrafundinum í Lúxemborg.
Innanríkisráðherra Frakka hvatti til þess að við endurskoðun á reglum um Schengen-gagnagrunninn yrði þess gætt að skrá þar upplýsingar um flugfarþega innan Evrópu – nafn, greiðslukortanúmer, ferðaáætlun og persónuupplýsingar. Þessar upplýsingar yrðu geymdar í grunninum í eitt ár en ekki í einn mánuð. Á ensku er þetta skráningarkerfi kallað Passenger Name Record (PNR).
Afgreiðsla reglna um þetta hefur tafist árum saman innan ESB-þingsins vegna umhyggju þingmanna fyrir persónuvernd.
Claude Moraes, formaður nefndar ESB-þingsins um borgararéttindi, sagði verulegar líkur á að strangar PNR-reglur yrðu samþykktar fyrir áramót. Ferðamenn geta vænst þess að þeir verði ekki aðeins beðnir um að sýna vegabréf heldur verði upplýsingar í því bornar saman við Schengen-gagnagrunn um sakamenn.
ESB skiptist reglulega á trúnaðarupplýsingum við Bandaríkin. Ástralíu og Kanada en hins vegar hefur reynst ógerlegt að skiptast á slíkum upplýsingum milli ESB-ríkja.
Dimitris Avramopoulos fer með stjórn innanríkis- og innflytjendamála í framkvæmdastjórn ESB. Á ráðherrafundinum 20. nóvember sagði hann að framkvæmdastjórnin ætlaði að leggja til að komið yrði á fót njósnastofnun ESB, European intelligence agency.
Eftir fundinn sagði hann að slík stofnun kæmi ekki til sögunnar á næstunni. Hann sagði: „Þetta er prýðileg hugmynd.“ Hann sagði hana þó „ ekki á borðinu á þessari stundu“. Brýnna væri að ríkin bættu samskipti sín á milli á þessu sviði.