Home / Fréttir / Schengen-kröfur trufla vísindamenn á Norðaustur-Grænlandi

Schengen-kröfur trufla vísindamenn á Norðaustur-Grænlandi

Station Nord
Station Nord

Deilur um landamæraeftirlit á Norðaustur-Grænlandi hafa þvingað danska háskóla til að aflýsa rannsóknaleiðöngrum og stofnað þátttöku Dana í mestu norðurskauts-rannsóknum sögunnar í hættu, segir í upphafi úttektar sem Andreas Krog birti á dönsku vefsíðunni Altinget.de laugardaginn 9. mars.

Frá árinu 2015 hafa danskir og annarra þjóða vísindamenn flogið beint frá norsku eyjunni Svalbarða til dönsku herstöðvarinnar Station Nord á Norðaustur-Grænlandi hafi þeir ætlað að fara til rannsóknastöðvarinnar Villum Research Station sem Árósar-háskóli heldur úti nokkur hundruð metra frá Station Nord. Segir Krog að á þennan hátt hafi stöðinni verið skapað aðdráttarafl og auðvelt hafi reynst að nota hana með stórum búnaði.

Þetta gengur hins vegar ekki lengur. Frá og með 1. janúar 2019 bannaði grænlenska lögreglan beint flug frá Svalbarða til Station Nord. Stöðin sé ekki Schengen-landamærastöð. Fara verði um slíka stöð komi maður frá Svalbarða, sem er utan Schengen-svæðisins, og inn í konungsríkið Danmörku. Grænland er að vísu ekki innan Schengen-svæðisins, danska ríkið hefur hins vegar skuldbundið dönsku lögregluna til að sinna virku eftirliti við landamæri Grænlands gagnvart löndum utan Schengen-svæðisins.

Opin innri landamæri gera kröfu um virkt eftirlit á ytri landamærum. Vegna þessa segir grænlenska lögreglan óviðunandi að vísindamenn fljúgi án landamæraeftirlits beint frá Svalbarða til Station Nord. Krog veltir fyrir sér hvers vegna þetta hafi þó verið í lagi í rúm þrjú ár.

52552

Eftir breytinguna um áramótin liggur flugleiðin til Station Nord og Villum Research Station um Ísland til flugvallarins og Schengen-landamærastöðvarinnar í Nerlerit Inaat rúmlega 1.000 km fyrir sunnan Station Nord á austurströnd Grænlands. Segir Krog að þetta þrefaldi farmiðaverðið fyrir hvern vísindamann og sé það þeim fjárhagslega um megn.

Í greininni kemur fram að afleiðing ákvarðana lögreglunnar um að binda enda á þessar ólöglegu beinu ferðir frá Svalbarða sé að vísindamenn haldi að sér höndum, hvorki háskólinn í Árósum né aðrar rannsóknastofnanir eins og DTU Space hafi efni á rannsóknum þarna nú á vormánuðum.

Þá sé óvissa um hvort Danir geti tekið þátt í því sem lýst er sem heimsins stærsta rannsóknarverkefni á norðurskautinu, ætlunin sé að hefja það með haustinu. Þá ætlar þýska Alfred Wegener-stofnunin að láta rannsóknaísbrjótinn Polarstern festast í ísnum í rússneska hluta Norður-Íshafs og fljóta síðan með honum í eitt ár inn í Frem-sund milli Station Nord og Svalbarða.

Rúmlega 600 manns frá 17 þjóðum ásamt ísbrjótum og flugvélum frá mörgum löndum taka þátt í verkefninu. Áætlanir gera ráð fyrir að Station Nord verði birgðastöð fyrir verkefnið og Villum Research Station verði samstarfsstöð. Þetta eru þeir staðir á jörðinni þar sem menn hafa fast aðsetur allan ársins hring næst norðurpólnum. Hann er í 933 km fjarlægð ef marka má vegvísi við stöðina.

Árósar-háskóli gat reist rannsóknastöð sína þarna árið 2015 þegar hann fékk rúmlega 70 m. d.kr. í styrk úr Villumfonden. Ákvörðunin um að hafa Villum Research Station á þessum stað réðst af samkomulagi við danska herinn um afnot af flugbrautinni við Station Nord.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …