Home / Fréttir / Schäuble líkir Martin Schulz við Donald Trump

Schäuble líkir Martin Schulz við Donald Trump

Wolfgang Schäuble.
Wolfgang Schäuble.

Kristilegi demókratinn Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, olli nokkru fjaðrafoki föstudaginn 10. febrúar þegar hann líkti Martin Schulz, nýju kanslaraefni jafnaðarmanna (SPD), og málflutningi hans við Donald Trump Bandaríkjaforseta. Jafnaðarmenn hafa brugðist illa við og sagt þetta sýna örvæntingu og hve fjármálaráðherrann sé fjarlægur kjósendum.

CDU-forystumaðurinn Schäuble, náinn samstarfsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara, sagði í viðtali við Der Spiegel að  Martin Schulz væri „næstum orð fyrir orð eins og Trump“. Hann sakaði Schulz, fyrrverandi forseta ESB-þingsins, um að stunda álíka lýðskrum, popúlisma, og varð til að fleyta fasteignajöfrinum Trump inn í Hvíta húsið.

CDU og SPD hafa setið í ríkisstjórn saman í tæp fjögur ár, stórri samsteypustjórn eins og Þjóðverjar kalla það þegar tveir stærstu flokkar landsins taka höndum saman um stjórn landsins. SPD hefur dalað undanfarin ár og glatað fyrri málefnalegum styrk og sérstöðu eins og flokkar jafnaðarmanna víðar í Evrópu.

Til að ávinna sér nýtt traust ýttu þýskir jafnaðarmenn núverandi flokksformanni og utanríkisráðherra, Sigmar Gabriel, til hliðar og völdu Martin Schulz sem kanslaraefni sitt í sambandsþingskosningunum í september 2017. Schulz er talinn sigurstranglegri en Gabriel vegna uppruna síns í verkalýðsstétt og hæfni til að virkja grasrótina sér til stuðnings í kosningum til sveitarstjórnar og þings.

„Leyfi Schulz stuðningsmönnum sínum að nota slagorðið: Hefjum Evrópu aftur til virðingar verður hann næstum orð fyrir orð eins og Trump,“ sagði Schäuble, og vísaði til notkunar slagorðsins og myllutengisins #MEGA hjá litlum hópi stuðningsmanna Schulz á vefsíðunni Reddit.

Schäuble sagði: „Á tímum þegar lýðskrum er notað til að lokka fólk um heim allan ættu stjórnmálamenn ekki að tala eins og Schulz. Hann segist vilja berjast gegn lýðskrumi, vilji hann það í raun ætti hann að virða ákveðnar staðreyndir.“

Schäuble lýsti einnig undrun á tilraunum SPD til að kynna Schulz til sögunnar sem pólitískan lítilmagna: „Maðurinn hefur setið á ESB-þinginu áratugum saman nú síðast sem forseti þess. Sé það ekki að vera hluti ráðandi afla, hvað er það þá?“ spurði Schäuble.

Fjármálaráðherrann vék að starfi ríkisstjórnar Angelu Merkel, samsteypustjórn CDU/CSU og SPD, og minnti á að hún hefði náð góðum árangri fyrir þýsku þjóðina. „Schulz neitar að trúa þessu. Þetta sýnir að hann lifir á tíma þar sem menn hafna því sem satt er.“

Thomas Oppermann, þingflokksformaður SPD, svaraði Schäuble af hörku laugardaginn 11. febrúar og sagði ummæli hans „svívirðileg og fráleit“.

„Að skynsamur maður eins og  Schäuble tali á þennan sýnir það hve örvæntingin er orðin mikil í flokknum,“ sagði Oppermann. „Aldrei er gott að láta örvæntingu stjórna sér.“

Sigmar Gabriel sagði að með orðum sínum kynni Schäuble að breyta komandi kosningabaráttu í illskeytt hnútukast á borð við það sem menn kynntust fyrir kosningarnar í Bandaríkjunum. Það ætti ekki að innleiða „öfgarnar, illgirnina og ásakanirnar“ sem tíðkuðust í Bandaríkjunum inn í þýsk stjórnmál.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …