
Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, tekur í síðasta sinn þátt í fundi fjármálaráðherra evru-ríkjanna mánudaginn 9. október. Hann verður næsti forseti þýska þingsins 75 ára að aldri.
Schäuble hefur fylgt fram aðhaldsstefnu á evru-svæðinu í árin átta sem hann hefur verið fjármálaráðherra Þýskalands. Vegna stefnufestu sinnar hefur hann eignast ýmsa óvildarmenn á meðal evru-ríkjanna en heima fyrir í Þýskalandi nýtur hann virðingar og vinsælda.
Í Eurogroup, óformlega en valdamikla hópnum, sem mótað hefur stefnuna að baki evrunni nýtur Schäuble óskoraðrar virðingar og sjónarmið hans vega þyngra en annarra, ekki aðeins vegna ríkidæmis Þjóðverja heldur einnig vegna persónu hans og málafylgju.
„Schäuble er persónugervingur ósvífni og þunga Þjóðverja en hann er einnig hrífandi,“ segir Michel Sapin, fyrrverandi fjármálaráðherra Frakklands, sem lýsti aðdáun á vitsmunum hans og dálæti á Evrópusamstarfinu: „Hann er sá eini við fundarborðið sem getur sagt: Ég þekki skuldavanda Grikkja frá fyrsta degi.“
Sapin var fjármálaráðherra Frakka árið 2015 þegar skuldakreppan lagðist þyngst á evru-svæðið og Schäuble sagði Grikkjum að segja tímabundið skilið við evruna og rauf með því bannhelgi fyrir utan að valda öðrum áfalli.
Nú segja fréttaskýrendur að Angela Merkel Þýskalandskanslari hafi komið fram sem bjargvættur gagnvart Grikkjum og bjargað þeim frá að falla fram af brúninni, hlutverk Schäuble hafi á hinn bóginn verið að segja Grikkjum til syndanna eins og hann gerði án þess að draga af sér.
Schäuble gegndi aldrei formennsku í evru-hópnum en allir vissu að allir þræðir voru í hans höndum á lokuðum fundum hópsins.
Árið 1990 var gerð tilraun til að myrða Schäuble og síðan hefur hann verið lamaður frá mitti.
Hann hefur fylgt þeirri einföldu stefnu að Þjóðverjar kæmu þeim nágrönnum sínum til aðstoðar fjárhagslega sem lofuðu að taka sig á og koma efnahag sínum varanlega í samt lag. Þannig hélt hann einnig á stjórn þýsku ríkisfjármálanna.
Schäuble er lögfræðingur að mennt. Hann er talsmaður laga og reglu á öllum sviðum og er lítið gefið um markaðsöflin að sögn þeirra sem telja sig þekkja skoðanir hans. Honum hafi því ekki mislíkað að leggja á ráðin um aðhaldsaðgerðir í skuldakreppunni.
Hann hefur einnig verið eindreginn og rökfastur talsmaður samrunaþróunarinnar í Evrópu, það er Evrópuverkefnisins eins og þeir segja sem vilja þróa ESB til sambandsríkis að lokum. Brottför hans úr evru-hópnum kann að leiða til þess að erfiðara en ella verði fyrir Emmanuel Macron Frakklandsforseta að hrinda í framkvæmd áformum sínum um sameiginlegan fjármálaráðherra og samræmingu fjárlaga á evru-svæðinu.
Bent er á að enginn sem talinn er líklegur eftirmaður Schäubles á stóli þýska fjármálaráðherrans hafi sömu reynslu og pólitíska vigt og hann, eftirmaðurinn verði því óhjákvæmilega meira en ella í höndum embættismannakerfisins sem sé andvígt breytingum og hallist jafnvel að meiri harðlínustefnu en Schäuble fylgdi.
Pierre Moscovici, efnahagsmálastjóri ESB og fyrrv. fjármálaráðherra Frakka, segir að hvernig sem á málin sé litið muni menn framvegis tala um evru-hópinn og evru-svæðið „fyrir og eftir Schäuble“. Hann segir að brottför þýska fjármálaráðherrans Schäubles sé „jarðskjálfti fyrir ervru-hópinn“.
Heimild: AFP