Home / Fréttir / Scaparrotti tekur við sem yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO

Scaparrotti tekur við sem yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO

Curtis Scaparrotti
Curtis Scaparrotti

Bandaríski hershöfðinginn Curtis Scaparrotti hefur tekið við sem yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO. Eitt helsta verkefni hans verður að efla bandarískan liðsafla í Evrópu. „Við stöndum frammi fyrir endurvöktu Rússlandi og árásargirni þess sem ögrar alþjóðareglum,“ sagði Scaparrotti á hátíðlegri athöfn miðvikudaginn 4. maí í Mons í Belgíu þar sem hann var formlega settur í embætti sitt í höfuðstöðvum Evrópuherstjórnar NATO.

Hershöfðinginn sagði að liðsafli NATO-ríkjanna yrði að vera „tilbúinn til að berjast dugi fælingarmátturinn ekki“.

Hann sagðist mundu leggja hart að ráðamönnum í Washington að þeir samþykktu að þriðja bandaríska stórfylkið hefði fasta viðveru í Evrópu til stuðnings hinum tveimur stórfylkjunum sem eru í Þýskalandi og á Ítalíu.

Bandaríkjastjórn hefur fækkað hermönnum sínum í Evrópu undanfarin ár meðal annars vegna skuldbindinga í Mið-Austurlöndum og Asíu. Nú eru innan við 65.000 bandarískir hermenn með fasta viðveru í Evrópu en þeir voru um 300.000 í kalda stríðinu.

Bandaríski hershöfðinginn Philip Breedlove, forveri Scaparrottis hjá NATO, hvatti Bandaríkjastjórn einnig eindregið til að fjölga hermönnum í Evrópu. Stjórnin hefur til þessa frekar kosið að senda hermenn til skammtímadvalar í álfunni en að þeir hafi fasta viðveru þar. Forystumenn Póllands og Eystrasaltsríkjanna hafa eindregið hvatt til fastrar viðveru sem flestra bandarískra hermann. Óttast þeir að Rússar kunni að sýna þjóðum sínum sama yfirgang og þeir hafa sýnt í Úkraínu frá 2014.

Undanfarnar vikur hefur þess gætt á Eystrasalti að Rússar ögri Bandaríkjaher bæði á sjó og á lofti. Scaparrotti hefur farið hörðum orðum um þessar ögranir. Hann sagði á fundi með öldungadeildarþingmönnum í Washington í apríl að með þessu ögruðu Rússar af ásetningi og sköpuðu með því hættu. Þeir yrðu að átta sig á að Bandaríkjaher mundi ekki líða að liðsmönnum hans yrði stefnt í hættu. Eitt fyrsta verk sitt sem yfirmaður Evrópuherstjórnarinnar yrði að fara yfir reglur um hvenær hermenn Bandaríkjanna og bandamanna þeirra mættu grípa til gagnaðgerða til að tryggja öryggi sitt.

Curtis Scaparrotti var yfirmaður bandaríska hersins í Suður-Kóreu þegar honum var falin herstjórn í Evrópu, áður var hann í Afganistan.

Heimild: rferl

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …