Home / Fréttir / Sauli Niinistö: Margir lásar tryggja öryggi Finna

Sauli Niinistö: Margir lásar tryggja öryggi Finna

Sauli Niinstö Finnlandsforseti flytur nýársávarp sitt 2024.,

Sauli Niinistö Finnlandsforseti flutti 1. janúar 2024 síðasta nýársávarp sitt en hann verður ekki í endurkjöri í finnsku forsetakosningunum í ár. Lýkur þar með 12 ára setu hans á forsetastóli.

Ávarpið snerist að verulegu leyti um finnsk öryggismál. Finnlandsforseti gegnir lykilhlutverki í finnskum utanríkis- og varnarmálum.

Hann sagði að öryggi Finnlands hefði nú verið jafnvel betur tryggt en áður og vísaði til inngöngu Finnlands í NATO 4. apríl 2023.

„Krafa Rússa til að koma í veg fyrir að Finnar og Svíar yrðu aðilar að NATO var til marks um tilraunir þeirra til að breyta ríkjandi stöðu og skapa grátt áhrifasvæði innan Evrópu,“ sagði forsetinn og benti á að hreyfing virtist á ferð Svía inn í bandalagið. Tyrkir hafa tafið hana en utanríkisnefnd þings þeirra gaf grænt ljós fyrir sitt leyti skömmu fyrir jól.

Finnska ríkisútvarpið Yle segir að Niinistö virðist hafa viljað efla öryggiskennd Finna með ávarpi sínu. Hann sagði: „Það eru nú margir lásar sem tryggja öryggi Finna.“

Hann nefndi nýgerðan varnarsamning Finna og Bandaríkjamanna og aðild Finna að sameiginlega viðbragðsheraflanum (JEF) undir forystu Breta.

Hann hvatti Evrópuríki einnig til að „vakna“ og láta fé renna til varnarmála, ekki aðeins til að aðstoða Úkraínumenn heldur einnig til að halda Rússum í skefjum en hann sagði þá vera „að endurheimta eitthvað af sjálfsvirðingu sinni“.

„Rússar eru aldrei eins sterkir og þeir virðast; Rússar eru heldur aldrei eins veikir og þeir virðast. Þetta hefur verið sagt á ólíkan hátt í áranna rás og hefur að geyma sannleikskorn,“ sagði Niinistö.

Yle minnir á að undanfarna mánuði hafi margir velt því fyrir sér hvort endurkoma Donalds Trumps í bandaríska forsetaembættið myndi leiða til þess að Bandaríkjamenn hyrfu frá Evrópu og NATO.

„Það er einnig ljóst að þess er vænst að Evrópuríkin auki ábyrgð sína í Atlantshafssamstarfinu,“ sagði Niinistö.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …