Home / Fréttir / Sáttatilraunir hafnar að nýju um nafnið á lýðveldinu Makedóníu

Sáttatilraunir hafnar að nýju um nafnið á lýðveldinu Makedóníu

Kortið sýnir Vestur-Balkanlöndin. Neðst í horninu hægra megin er Makedónía við grísku landamærin en sunnan þeirra er héraðið Makedónía í Grikklandi. Margir Grikkir vilja líta á alla Makedóníu, norður og suður, sem hluta af landi sínu.
Kortið sýnir Vestur-Balkanlöndin. Neðst í horninu hægra megin er Makedónía við grísku landamærin en sunnan þeirra er héraðið Makedónía í Grikklandi. Margir Grikkir vilja líta á alla Makedóníu, norður og suður, sem hluta af landi sínu.

Eftir að Svartfjallaland gerðist aðili að NATO þrátt fyrir harða andstöðu rússneskra stjórnvalda og tilraunir skjólstæðinga þeirra í Serbiu til að hlutast til um kosningar í Svartfjallalandi með tilraun til ódæðisverka hefur athygli verið vakin á rússneskum undirróðri víðar í Vestur-Balkanlöndunum eins og svæðið sem áður var Júgóslavía er gjarnan nefnt.

Makedónía er eitt þessara landa. Nafn ríkisins hefur löngum verið þrætuepli milli grískra stjórnvalda í Aþenu og þeirra sem ráða í Skopje, höfuðborg Makedóníu. Opinbert nafn landsins er Lýðveldið Makedónía. Grikkir sem líta á Makedóníu sem hluta af landi sínu viðurkenna ekki þetta nafn og innan Sameinuðu þjóðanna er landið viðurkennt undir enska nafninu The Former Yugoslav Republic of Macedonia (FYROM), Fyrrverandi júgóslavneska lýðveldið Makedónía.

Í maí urðu stjórnarskipti í Skopje og með nýjum stjórnarherrum hefur áhuginn á að tengjast ESB og NATO aukist. Lykillinn að aðild að þessum alþjóðasamtökum er að leysa nafnadeiluna við Grikki – þeir hafa neitunarvald gegn aðild nýrra ríkja bæði í ESB og NATO.

Bandaríkjastjórn hefur áhuga á að greiða fyrir aðild Makedóníu að ESB og NATO til að skapa viðspyrnu gegn sókn Rússa í Vestur-Balkanlöndunum. Grísk stjórnvöld vilja ekki heldur að Rússar búi um sig á þessum slóðum og þar með er talið líklegt að þau séu nú fúsari en áður til að semja við Makedóníumenn.

Á sínum tíma tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar sérstakan fulltrúa sinn til að reyna að leysa hnútinn vegna deilunnar um nafnið á ríkinu í Makedóníu. Tilraunir fulltrúans, Matthews Nimetz, til að leita sátta hafa legið niðri í þrjú ár en hann hefur nýlega stofnað að nýju til viðræðna við utanríkisráðherra Makedóníu og Grikklands um málið.

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …