
Franska blaðið Le Figaro birti fimmtudaginn 22. mars greinargerð sem Nicolas Sarkozy, fyrrverandi Frakklandsforseti, lagði fyrir rannsóknatdómara í máli hans miðvikudaginn 21. mars áður en honum var sleppt úr tveggja sólarhringa varðhaldi. Hann var sviptur frelsi til að svara spurningum vegna ásakana um að Muammar Gaddafi, harðstjóri í Líbíu, hefði veitt honum fjárstuðning í forsetakosningabaráttunni árið 2007.
Sarkozy spyr hvernig nokkrum detti í hug að segja að hann hafi dregið taum stjórnvalda í Líbíu. Hann sem hafi fengið umboð frá Sameinuðu þjóðunum til að ráðast á Líbíu undir stjórn Gaddafis. Án pólitískra afskipta hans sæti stjórn Gaddafis líklega enn við völd.
Hafa bæri í huga að á árunum frá 2007 til 10. mars 2011 hefði Gaddafi sjálfur aldrei gefið til kynna að hann hefði lagt Sarkozy lið. Yfirlýsingagleði Gaddafis, fjölskyldu hans og samstarfsmanna í þessa veru hefði ekki hafist fyrr en 11. mars 2011, daginn eftir að Sarkozy tók á móti CNT, andstæðingum Gaddafis, í Élysée-forsetahöllinni. Þá fyrst hefði rógsherferðin hafist.
Greinargerðin er er um 1.700 orð og þar svarar Sarkozy öllum ásökunum á hendur sér og færir rök fyrir að á hann sé ráðist af illum huga og án nokkurra sannanna.
Hann minnir á að hernaðurinn gegn Gaddafi hafi staðið frá mars fram í október árið 2011. Í þessa sjö mánuði hafi Gaddafi verið á lífi og ekkert hindrað hann í birta skjöl, myndir, upptökur eða annað til að sanna mál sitt, ekkert slíkt hefði gerst.