Home / Fréttir / Sanna Marin útilokar hvorki erlendar herstöðvar né kjarnavopn

Sanna Marin útilokar hvorki erlendar herstöðvar né kjarnavopn

Forsætisráðherrarnir Ulf Kristersson og Sanna Marin í Helsinki 28. október 2022.

Sanna Marin, forsætisráðherra Finna, sagði í samtali við finnska ríkisútvarpið, YLE, laugardaginn 29. október að ómögulegt væri að geta sér til um hvenær Ungverjar og Tyrkir fullgiltu aðild Finna að NATO.

Þessi tvö ríki, af 30 innan NATO, eiga eftir að afgreiða aðildarumsóknir Finna og Svía að bandalaginu. Sanna Marin sagðist vissulega vona að málinu yrði lokið sem fyrst.

Í þættinum sem var opin til þátttöku fyrir áheyrendur spurði einn úr hópi þeirra hvers vegna finnsk stjórnvöld hefðu ekki gert fyrirvara í aðildarumsókninni um að hvorki yrðu kjarnavopn né erlendur her með fasta viðveru á finnsku landi.

„Ég hef talið mjög mikilvægt að við settum ekki slíka fyrirvara eða þrengdum þannig svigrúm okkar til að taka ákvarðanir varðandi fasta viðveru erlends hers eða kjarnavopn,“ svaraði Marin en bætti við að henni þætti ólíklegt að kjarnavopnum yrði komið fyrir á finnsku landsvæði.

Löng hefð er fyrir því að fyrsta utanlandsferð sænsks forsætisráðherra sé til Finnlands – og finnsks forsætisráðherra til Svíþjóðar.

Ulf Kristersson, nýr forsætisráðherra Svíþjóðar, heimsótti Helsinki föstudaginn 28. október. Þá staðfestu forsætisráðherrar landanna að þau yrðu samferða inn í NATO og stæðu saman að viðræðum við tyrknesk stjórnvöld vegna aðildarinnar.

Á blaðamannafundi með sænska forsætisráðherranum sagði Sanna Marin að það væri mjög mikilvægt að ríkin ættu samleið inn í NATO.

Þá sagði Marin að tryggja yrði sigur Úkraínumanna í stríðinu við Rússa. Finnar myndu leggja Úkraínumönnum til hergögn, veita þeim fjárhagslegan stuðning, mannúðaraðstoð og taka vel á móti flóttamönnum frá Úkraínu.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …