
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, er í fyrstu opinberu heimsókn finnsks forsætisráðherra til Eyjaálfu, Nýja-Sjálands og Ástralíu.
Forsætisráðherrann flutti föstudaginn 2. desember ræðu í hugveitunni Lowy Institute í Sydney í Ástralíu. Hér eru nokkur atriði úr ræðunni:-
„Ólögmætt og grimmdarlegt stríð Rússa gegn Úkraínumönnum, dráp á þúsundum og aftur þúsundum hermanna og almennra borgara Úkraínu og stöðug ógnarverk, allt kallar þetta á öflugt, hnattrænt andsvar.
Þegar Rússar, sem eiga fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, brjóta algjörlega refsilaust sáttmála SÞ, virða alþjóðalög að engu og fremja stríðsglæpi skaðar það okkur öll – í Evrópu, á Indó-Kyrrahafssvæðinu og annars staðar.
Orkukreppa, fæðukreppa og hækkandi verðbólga, allt stafar þetta frá Rússum. Komandi vetur verður ekki aðeins harður í Úkraínu heldur einnig í löndum okkar. Erfiðleikar okkar ganga hins vegar yfir.
Úkraínumenn berjast fyrir lífi sínu og framtíð sem frjálsrar þjóðar. Við verðum að halda áfram að styðja þá. Ekki er annarra kosta völ.
Við verðum að gera allt sem þarf til að Úkraínumenn sigri í stríðinu. Friður kemst á að nýju. Friðurinn verður hins vegar að vera á forsendum Úkraínumanna. Við verðum að leggja enn meira á okkur til til að koma rússneskum ráðamönnum í skilning um að þeir tapa aðeins á þessu stríði – og þeir munu tapa því.“
Forsætisráðherrann sagði að innan ESB væri unnið að því að setja saman nýjan refsipakka gegn Rússum og Finnar vildu að þar yrði tekið enn fastar á orkumálum í því skyni að minnka tækifæri Rússa til að hagnast á orkusölu með hernaði sínum. Loka yrði öllum gloppum sem Rússar hefðu getað nýtt sér.
Sanna Marin minnti á að Rússar hefðu nýtt sér ferðaheimildir til Finnlands til að dvelja í landinu eða fara um það til annarra landa. Nú hefði verið tekið fyrir útgáfu slíkra heimilda til Rússa. Það hefði þótt siðferðilega óverjandi að leyfa mið- og efri stéttar Rússum að njóta þess að ferðast sér til ánægju á sama tíma og landar þeirra fremdu illvirki, pyntingar og hryðjuverk í Úkraínu. Þessir Rússar hefðu búið þannig um hnúta að stríðið snerti þá lítið sem ekkert.
Þá taldi finnski ráðherrann mikilvægt að markvisst yrði unnið að því að frysta eignir útvalinna Rússa, auðmannanna við hlið Pútins. Finna yrði lögmætar leiðir til að gera eignir þessara manna upptækar og nýta þær til endurreisnar í Úkraínu.
Sanna Marin sagði að samhliða nýjum refsipakka gegn Rússum ynni ESB næu að því að auka aðstoð sína við Úkraínumenn. Þar væri rætt um að veita stuðning sem meta mætti á allt að 18 milljarða evra.
Þá sagði forsætisráðherrann:
„Gerum okkur engar grillur: ef þetta hrikalega hættuspil gengur upp hjá Rússum, verður það ekki aðeins þeim einum til hvatningar. Aðrir láta einnig freistast til að fremja sambærileg myrkraverk.“
Finnski forsætisráðherrann höfðaði til samstöðu íbúa Evrópu og Ástralíu til að verja sameiginleg gildi. Þá yrðu þjóðirnar að vinna saman til að ná árangri í loftslagsmálum, vegna mikilvægrar hrávöru og nýrrar tækni.
Mikilvægar framfarir í vísindum, rannsóknum og nýsköpun ykju hættuna á að til yrðu svið þar sem ósjálfstæði ykist, skref á þessum sviðum yrðu ekki stigin án þess að tengjast öðrum. Ofríkisstjórnir kynnu að misnota aðstöðu sem þær fengju vegna skorts á sambærilegum leikreglum og gagnkvæmni. Við meiri innleiðingu stafrænna lausna yrði einnig að vera unnt að treysta tækninni. Sameiginlega yrðu þjóðir Evrópu og Ástralíu að skapa sér öruggan samstarfsgrundvöll í vísindum, rannsóknum og nýsköpum.
Í lok ræðu sinnar sagði finnski forsætisráðherrann:
„Það er mjög mikilvægt að skapa viðskiptasvæði þar sem jafnræði ríkir. Við verðum að krefjast algjörrar gagnkvæmni af öllum samstarfsaðilum í viðskiptum og fjárfestingum hvar sem er í heiminum. Það hefur hins vegar komið í ljós vegna nýlegra styrjalda, kreppu og hamfara að þetta nægir ekki.
Opin, lýðræðisleg og framsækin þjóðfélög þarfnast einnig öflugra strategísks sjálfræðis á sérstaklega mikilvægum sviðum fyrir borgara sína og að þar að baki verður að vera traust samstarfsnet.
Samvinna milli framsækinna lýðræðisríkja er mikilvægari nú en nokkru sinni. Við verðum að verja sameiginleg gildi, almenn mannréttindi og lýðræði með nýju afli, nýjum ásetningi. Við verðum að smíða brýr á milli Evró-Atlantshafs- og Indó-Kyrrahafs-svæðanna.“