Home / Fréttir / Samstarfsráð NATO og Rússlands hittist í fyrsta sinn síðan 2014

Samstarfsráð NATO og Rússlands hittist í fyrsta sinn síðan 2014

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.

 

Fundað verður í samstarfsráði NATO og Rússlands NATO-Russia Council miðvikudaginn 20.apríl. Markar fundurinn nokkur tímamót þar sem þetta ráð hefur ekki komið saman síðan í júní 2014. Vildi NATO ekki funda frekar með Rússum í ráðinu vegna innlimunar þeirra á Krímskaga og yfirgangs þeirra í austurhluta Úkraínu í mars 2014. Tekið er fram af hálfu NATO að ekki beri að túlka fundinn nú sem allt sé fallið í ljúfa löð milli bandalagsins og Rússa, svo sé ekki enda hafi Rússar brotið alþjóðalög.

Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens, hefur lýst efasemdum um réttmæti þess að efna til fundar í samstarfsráðinu nú. Rússar muni vafalaust reyna að nýta hann í áróðursskyni.

Þegar Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, kynnti fyrirhugaðan fund á dögunum sagði hann að rætt yrði um ástandið í og umhverfis Úkraínu og nauðsyn þess að framkvæma Minsk-friðarsamkomulagið að fullu og öllu. Þá yrði rætt um hernaðarumsvif með áherslu á gagnsæi og leiðir til að draga úr hættu á árekstrum. Einnig yrði staða öryggismála í Afganistan á dagskrá og hættan af hryðjuverkamönnum.

Þótt hlé hafi verið gert á fundum samstarfsráðs NATO og Rússa hefur verið efnt til funda embættismanna bandalagsins og Rússlands. Þannig hittust Stoltenberg og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, síðast á öryggisráðstefnunni í München í febrúar 2016. Vara-framkvæmdastjóri NATO hefur átt fundi með Alexander Grushko, sendiherra Rússlands gagnvart NATO.

Samstarfsráð NATO og Rússlands er samráðsvettvangur fulltrúa NATO-ríkjanna 28 og Rússlands þar sem allar ákvarðanir eru reistar á samþykki allra. Framkvæmdastjóri NATO stjórnar fundum ráðsins. Ráðið kom til sögunnar á leiðtogafundi NATO og Rússlands í Róm 28. maí 2002.

Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens, hefur lýst efasemdum um réttmæti þess að efna til fundar í samstarfsráðinu nú. Rússar muni vafalaust reyna að nýta hann í áróðursskyni.

Ráðherrann sagði mánudaginn 18. apríl við BNS-fréttamiðilinn að hann hefði lýst efasemdum sínum um fundinn en gerði ekki frekari athugasemd vegna hans úr því að önnur ríki vildu halda hann.

Hann sagðist vona að hann hefði rangt fyrir sér en hann óttaðist að fundurinn yrði ekki til að minnka bilið á milli aðila eða til að skýra stöðu mála heldur yrði hann frekar nýttur til áróðurs.

Í aðdraganda fundarins hafa atvik á Eystrasalti minnt stjórnir NATO-landa þar á yfirgangsstefnu Rússa. Fyrst í upphafi síðustu viku þegar tvær rússneskar orrustuþotur ögruðu bandaríska tundurspillinum Donald Cook með glæfralegu flugi við hlið hans og síðan fimmtudaginn 14. apríl þegar rússnesk orrustuþota ögraði bandarískri eftirlitsflugvél.

 

Skoða einnig

Óljósar fregnir af lögsögukröfum Rússa á Eystrasalti vekja grunsemdir

  Rússnesk stjórnvöld kynntu miðvikudaginn 22. maí áform um að breyta ytri markalínum rússneskra yfirráðasvæða …