Home / Fréttir / Samræma sjónarmið í norðri fyrir toppfund NATO í Washington

Samræma sjónarmið í norðri fyrir toppfund NATO í Washington

Alexander Stubb, Jonas Gahr Støre og Ulf Kristersson á fundi í Bodø, Noregi, 20. júní 2024.

Alexander Stubb Finnlandsforseti, Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs og Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar hittust 19. og 20. júní í Bodø í Noregi. Þeir ræddu um leiðir til að dýpka varnarsamstarf sitt í hánorðri innan ramma aðildar sinnar að NATO.

Finnlandsforseti sagði að aðild Finna og Svía að NATO leiddi til þess að endurhugsa yrði varnir alls norðurhluta Evrópu og í því efni hefðu nýju NATO-þjóðirnar mikið að sækja til reynslu Norðmanna.

Athygli beindist að stöðu öryggismála fyrir norðan heimskautsbaug og tengslunum milli norðurslóða og Eystrasaltsins. „Lokist umferð um Eystrasalt yrðu hjáleiðir til Finnlands um Svíþjóð og Noreg. Við ræddum mikið um innviði og hvernig þeim yrði hagað í norðri,“ sagði Finnlandsforseti.

Hann sagði að þeir hefðu einnig rætt hvernig þeir myndu haga störfum sínum á ríkisoddvitafundi NATO í Washington 9. og 10. júlí. Það væru mörg málefni sem þeir gætu kynnt sameiginlega á fundinum.

Varnarmálaráðherrar ríkjanna: Antti Häkkänen (Finnlandi), Bjørn Arild Gram (Noregi) og Pål Jonson (Svíþjóð), tóku einnig þátt í fundinum. Rituðu ráðherrar Noregs og Finnlands undir tvíhliða varnarsamstarfssamning landa sinna.

Sagt er frá fundinum á norsku vefsíðunni High North News miðvikudaginn 26. júní. Þar er haft eftir norska forsætisráðherranum að hann hafi viljað beita sér fyrir því að náið varnarsamstarf þjóðanna, sem þróast hefði stig af stigi og tekið á sig nýja mynd með aðild þeirra allra að NATO, væri rætt af ríkisoddvitum þjóðanna þannig að pólitísk afstaða þeirra til viðfangsefna líðandi stundar væri öllum ljós.

Hann sagðist einnig hafa viljað upplýsa nágranna sína um stöðu Noregs sem strandríkis við Atlantshaf, hvað fælist í norskum varnaráætlunum og hvernig staðið væri að framkvæmd þeirra. Landfræðileg sýn og viðhorf Finna og Svía væru önnur. Það yrði að samhæfa þessa ólíku landfræðilegu hagsmuni.

Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra Noregs leggur áherslu á að það verði að liggja fyrir skýrar áætlanir um hvernig staðið verði að flutningi hermanna og hergagna milli landanna fyrir norðan heimsskautsbaug til að tryggja að aðgerðir skili sem bestum árangri.

Ulf Kristersson segir að í Svíþjóð hafi menn til þessa einkum litið til norðurs og suðurs í varnarmálaumræðum en nú verði þeir að ræða um austur-vestur og vestur-austur fyrir utan að tengjast breyttum landfræðilegum staðreyndum.

Norski varnarmálaráðherrann ræddi nýja skipan herstjórna NATO og svæðisbundnar varnaráætlanir sem verða til umræðu á ríkisoddvitafundi NATO í Washington.

Við aðild Svía og Finna að NATO vöknuðu spurningar um undir hvaða herstjórn NATO-ríkin skyldu falla. Á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna 14. júlí 2024 lýstu ráðherrarnir stuðningi við að norrænu ríkin skipulegðu sig undir NATO-herstjórninni JFC Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum.

Þetta er nýjasta herstjórn NATO eftir breytingu á herstjórnarskipan þess til svipaðrar áttar og var í kalda stríðinu þegar Atlantshafsherstjórnin í Norfolk annaðist áætlanagerð fyrir Norður-Atlantshaf. Keflavíkurstöðin var hluti af þeirri herstjórn en Noregur og Danmörk féllu undir Evrópuherstjórnina.

Núna nær JFC Norfolk yfir Atlantshaf og norðurslóðir og fyrir liggur samkomulag um að norrænu ríkin fimm falli undir þessa sömu aðgerðaherstjórn.

Í frétt High North News kemur fram að norski varnarmálaráðherrann telji að norrænu ríkin séu samhuga um mikilvægi þess að herstjórnin í Norfolk verði starfhæf sem fyrst. Norðmenn muni auka verulega mannafla sinn á næsta ári og stuðning við herstjórnina.

Hann segir að með því að lúta sameiginlegri aðgerðaherstjórn innan ramma sömu svæðisbundnu varnaráætlunarinnar verði lagður góður grunnur að frekari þróun norrænnar varnarsamvinnu.

Herstjórnarkerfi NATO

Ríkisoddvitafundur NATO í Vilníus í júlí 2023 samþykkti nýjar svæðisbundnar áætlanir fyrir NATO. Fela þær m.a. í sér frekari uppbyggingu sameiginlegrar herstjórnar bandalagsins í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum (Joint Force Command Norfolk, JFC Norfolk). Herstjórnin nær yfir Atlantshaf og norðurslóðir eins og áður segir.

NATO heldur nú úti þremur aðgerðaherstjórnum: í Napolí á Ítalíu, í Brunssum í Hollandi og í Norfolk.

Áður en Noregur féll undir JFC Norfolk var hann undir JFC Brunssum.

Lokaákvörðun um frekari aðlögun herstjórnarkerfisins verður væntanlega tekin á ríkisoddvitafundinum í Washington í júlí.

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …