Home / Fréttir / Samkomulag um nafnið á Makedóníu

Samkomulag um nafnið á Makedóníu

Grískir þjóðernissinnar mótmæla samkomulaginu um Norður-Makefóníu.
Grískir þjóðernissinnar mótmæla samkomulaginu um Norður-Makedóníu.

Utanríkisráðherrar Grikklands og Makedóníu (FYROM) rituðu sunnudaginn 17. júní undir bráðabirgðasamkomulag um nafnið á Makedóníu eftir að hafa deilt um það í 27 ár, frá því að Makedónía lýsti yfir sjálfstæði. Nafnið verður Lýðveldið Norður-Makedóníu. Þar með verður það greint frá Makedóníu-héraði í Grikklandi.

Nikos Kotzias, utanríkisáðherra Grikklands og Nikola Dimitrov, utanríkisráðherra Norður-Makedóníu, rituðu undir samkomulagið en forsætisráðherrar landanna voru við athöfnina.

Harðlínumenn í báðum löndum hafa andmælt samkomulaginu sem verður lagt fyrir þing landanna til staðfestingar, þá verður einnig efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í Makedóníu. Endanleg niðurstaða fæst ekki fyrr en eftir nokkra mánuði.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, sagði að með samkomulaginu og undirritun þess væri stigið sögulegt og nauðsynlegt skref fyrir þjóðir landanna. Tímabært væri að búa um gömul sár á Balkanskaga og leyfa þeim að gróa í friði og bræðralagi.

Alexander mikli kom frá Makedóníu sem er nyrsta hérað Grikklands og líta Grikkir enn þann dag í dag á hann sem sína mestu hetju. Margir þeirra óttast að í krafti nafnsins geri stjórnvöld í Norður-Makedóníu kröfu um að allt héraðið Makedónía falli undir sína stjórn og leitist því við að hrifsa landsvæði af Grikkjum.

Vegna andstöðu við samkomulagið í Grikklandi var flutt tillaga um vantraust á stjórn Tsipras laugardaginn 16. júní. Gríska þingið felldi hana.

Þjóðernissinnar í Makedóníu vilja að land sitt beri nafnið Makedónía án nokkurra breytinga.

Samkomulagið leiðir meðal annars til þess að Grikkir hverfa frá andmælum sínum við að Makedónía geti gerst aðili að ESB eða NATO.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …