
Að kvöldi mánudags 2. júlí tókst samkomulag milli Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Horsts Seehaufers innnanríkisráðherra um framkvæmd útlendingastefnunnar. Seehaufer sem hótaði afsögn að kvöldi sunnudags 1. júlí á fundi með flokksmönnum sínum í Kristilega sósíalflokknum (CSU) í München dró hana til baka að morgni mánudags.
Allan mánudaginn sátu þingflokkar Kristilegra demókrata (CDU) og CSU og forystumenn þeirra á fundum í Berlín og að lokum náðist samkomulag um lausn mála sem leiðir til þess að Seehofer situr áfram í ríkisstjórninni þótt margir telji hann hafa veikt stöðu sína með hringlandahætti sínum.
„Við höfum náð samkomulagi,“ sagði Seehofer við blaðamenn að kvöldi mánudagsins. Merkel sagðist ánægð með niðurstöðuna. CDU og CSU hefðu náð góðri málamiðlun eftir „harðar“ lotur. Hluti samkomulagsins væri að opna viðkomumiðstöðvar á þýsk-austurrísku landamærunum.
Æltunin er að senda hælisleitendur sem hafa þegar verið skráðir í öðru ESB-landi aftur beint til viðkomandi landa enda samþykki þau það. Sameiginlegur þingflokkur CDU/CSU fær að morgni þriðjudags 3. júlí nánari upplýsingar um útfærslu samkomulagsins.
Foryrstumenn stjórnarflokkanna, CDU, CSU og jafnaðarmanna (SPD) ætluðu að funda síðla kvölds mánudaginn 2. júlí. Þar kemur í ljós hvort SPD fellst á samkomulagið milli Merkel og Seehofers.
Wolfgang Schäuble, forseti Bundestag, neðri deildar þýska þingsins lýsti þeirri skoðun á fundi með forystusveit CDU að stjórnarsamstrafið væri „á bjargbrúninni“. Merkel og Alexander Dobrindt, þingflokksformaður CSU í Berlín, hvöttu til þess á sameiginlegum þingflokksfundin CDU og CSU að leitað yrði samkomulags. „Viljinn til að finna lausn er mikill,“ sagði Merkel. Dobrindt sagðu að leysa mætti vandann og minnti á samstarf þingflokkanna í marga áratugi.