Home / Fréttir / Samið um Hans Ø og markalínu milli Grænlands og Kanada

Samið um Hans Ø og markalínu milli Grænlands og Kanada

Hans Ø í Kennedysundi milli Kanada og Grænlands – 350 km til næstu byggðar.

Þriðjudaginn 14. júní rita Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Dana, Mélanie Joly, utanríkisráðherra Kanada og Múte B. Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, í Ottawa, höfuðborg Kanada, undir sögulegt samkomulag til lausnar á deilu um ráð yfir Hans Ø, eyðieyju í norðurhöfum milli Kanada og Grænlands.

Í samkomulaginu milli Danmerkur og Kanada er einnig að finna ákvæði um skiptingu á stóru svæði á Labradorhafi fyrir suðvestan Grænland. Bæði á eyjunni og á hafinu fellur meira en helmingur umdeilds svæðis í hlut Dana. Stækkar Danska konungsríkið þar með um 40.000 ferkílómetra, tæplega hálft Ísland, eða svæði sem nær yfir Jótland, Sjáland og Fjón.

Með samkomulaginu er dregin alls 3.882 km löng markalína í hafinu milli lögsögu Kanada og Danska konungsríkisins frá Lincolnhafi fyrir norðan Grænland til Labradorhafs fyrir suðvestan Grænland. Er þetta lengsta markalína í heimi á hafi úti.

Andreas Krog, ritstjóri öryggis- og varnarmála hjá dönsku vefsíðunni Altinget.dk, segir að bæði Danir og Kanadamenn líti þannig á að með samkomulaginu séu send skýr skilaboð til umheimsins um að unnt sé að ná í friði samkomulagi um ráð yfir hafsvæðum. Hvorki sé nauðsynlegt að beita vopnum né dagsektum.

Þá sé einnig litið á samningaviðræðurnar sem æfingu fyrir væntanlegar samningaviðræður milli Dana, Rússa og Kanadamanna um ágreiing þjóðanna um ráð yfir hafsbotninum við Norðurpólinn. Þar hangi mörg hundruð þúsund ferkílómetrar á spýtunni.

Með samkomulaginu um Hans Ø er bundinn endir á tæplega 50 ára langa deilu um ráð yfir þessari afskekktu klettaeyju sem er aðeins 1,2 ferkílómetrar að stærð. Eyjan er í Kennedysundi um 350 km frá næsta mannabústað, grænlensku byggðinni Siorapaluk.

Ágreiningur hefur verið um yfirráðin síðan 1973 þegar lögsagan var færð út á svæðunum milli Grænlands og Kanada. Þegar setja átti markalínu var einfaldlega hoppað yfir Hans Ø.

Í áranna rás hafa sjóliðar úr danska og kanadíska flotanum skipst á um að fara á land í eyjunni og draga fána lands síns að húni. Í fyrstu ferð sinni skildu Danir eftir koníaksflösku við flaggstöngina. Kanadamenn skildu hins vegar eftir viskí.

Með árunum færðist meiri hiti í leikinn og upp úr sauð árið 2005 þegar Bill Graham, þáv. varnarmálaráðherra Kanada, dró niður veðurbarinn danskan fána á eyjunni og setti kanadískan á stöngina. Danska utanríkisráðuneytið kallaði sendiherra Kanada á teppið og danskt herskip var sent norður að eyjunni.

Við svo búið urðu stjórnir landanna sammála um að vera ósammála um eyjuna og ráð yfir henni. Semja yrði um lausn málsins.

Árið 2018 var komið á fót starfshópi með þátttöku Dana, Grænlendinga og Kanadamanna til að finna lausnina. Þegar starfshópurinn hafði starfað í þrjú ár fannst hún í nóvember 2021. Samkomulagið nær bæði til skiptingar á Hans Ø og á milli landanna í Labradorhafi.

Lokaáfangi viðræðnanna stóð samfellt í þrjá daga á maraþonfundum á hlutlausu svæði, í Hörpu við Reykjavíkurhöfn.

Með samkomulaginu er Hans Ø skipt frá suðri til norðurs eftir náttúrulegri gjá og fellur meiri en helmingur eyjarinnar í hlut Danska konungsríkisins. Ekki er stefnt að því að reisa girðingu á landamærunum en þeim verður lýst á skilti á norðurenda eyjarinnar.

Danmörk er í Schengen og ber Dönum að gæta ytri landamæra Schengensvæðisins á Hans Ø. Ekki er þó gerð krafa um fasta viðveru þar og verður eyjan áfram mannauð.

 

Heimild: Altinget.dk

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …