
Norrænu ríkin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að dýpka samstarf flugherja sinna. Þau hafa gefið út sameiginlega viljayfirlýsingu um þessa fyrirætlan sem yfirmenn flugherja landanna rituðu undir 16. mars í Ramstein-flugherstöðinni í Þýskalandi.
Áform í þessa veru eru ekki ný á nálinni meðal norrænna herforingja og fræðinga en þegar þau koma til framkvæmda verður til nútímalegur, sameinaður flugherfloti sem hefur að geyma rúmlega 250 orrustuþotur. Aðild Svía og Finna að NATO auðveldaði lokaákvarðanir um að skrifa undir viljayfirlýsinguna.
„Lokamarkmiðið er að geta starfað hindrunarlaust saman sem einn herafli á grundvelli norræns skipulags um sameiginlegar aðgerðir í krafti aðferðafræði sem þegar hefur verið þróuð innan NATO,“ sagði í tilkynningu danska flughersins.
Jan Dam, hershöfðingi, yfirmaður danska flughersins, sagði við Reuters-fréttastofuna að það sem hefði ráðið úrslitum við að formbinda samstarf flugherjanna hefði verið innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022. Við þetta yrði til herstyrkur á borð við þann sem er á hendi stórs Evrópuríkis.
Í frétt Reuters föstudaginn 24. mars sagði að Svíar eigi fleiri en 90 Gripen-þotur; Norðmenn eigi 57 F-16 orrustuþotur og 37 F-35 orrustuþotur og 15 fleiri af þeim til viðbótar í pöntun; Finnar eigi 62 F/A-18 Hornet-þotur og 64 F-35 í pöntun og Danir eigi 58 F-16 og 27 F-35 í pöntun.