Home / Fréttir / Sameiginlegar flota- og flugheræfingar Kínverja og Rússa

Sameiginlegar flota- og flugheræfingar Kínverja og Rússa

 

 

For

Kínverjar og Rússar munu á næstunni efna til sameiginlegra heræfinga á sjó og í lofti á Japanshafi til að efla enn frekar samstarf sitt á sviði her- og varnarmála. Yang Yujun, talsmaður kínverska varnarmálaráðuneytisins, skýrði frá þessu á blaðamannafundi í Peking fimmtudaginn 30. júlí. Æfingarnar munu standa í átta daga frá 20. til 28. ágúst á Flóa Péturs mikla og öðrum svæðum undan Kyrrahafsströnd Rússlands.

Æfingasvæðið er skammt frá þeim stað þar sem landamæri Rússlands, Kína og Norður-Kóreu tengjast.

Yang sagði að æfðar yrðu loftvarnir, kafbátavarnir, átök á hafi úti og landganga. Kínverjar senda herskip ásamt orrustuþotum og öðrum flugvélum til þátttöku í æfingunum, meðal kínversku skipanna verða tundurspillir og freigáta.

Af Rússa hálfu verða kabátar, herskip og flugvélar sendar til æfinganna.

Bæði ríkin munu senda þyrluskip og landgönguliða á vettvang.

Yang sagði að meginmarkmið æfinganna væri að samhæfa enn frekar getu herja ríkjanna tveggja til að „takast sameiginlega á við öryggisógnun á hafinu“.

Fyrstu sameiginlegu flotaæfingar ríkjanna á Miðjarðarhafi og Svartahafi voru í maí 2015. Flotar ríkjanna hafa komið saman til æfinga á Kyrrahafi síðan 2012.

Japanir og Kínverjar deila um yfirráð á hafsvæðum sem tengja löndin. Kínverjar segja Japani gera alltof mikið úr hættu af Kínverjum á Kyrrahafssvæðinu. Yang sakaði Japani um að mikla þessa hættu til að afsaka breytingar á lögum um japanska herinn. Í þeim felst að her Japana hefur nú heimild til að berjast við hlið bandamanna sinna komi til átaka.

 

Skoða einnig

Kristilegir demókratar (CDU) velja sér nýja forystu

Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel, fráfarandi kanslara, kemur saman fyrir árslok til að velja …