Kínverjar og Rússar munu á næstunni efna til sameiginlegra heræfinga á sjó og í lofti á Japanshafi til að efla enn frekar samstarf sitt á sviði her- og varnarmála. Yang Yujun, talsmaður kínverska varnarmálaráðuneytisins, skýrði frá þessu á blaðamannafundi í Peking fimmtudaginn 30. júlí. Æfingarnar munu standa í átta daga frá 20. til 28. ágúst á Flóa Péturs mikla og öðrum svæðum undan Kyrrahafsströnd Rússlands.
Æfingasvæðið er skammt frá þeim stað þar sem landamæri Rússlands, Kína og Norður-Kóreu tengjast.
Yang sagði að æfðar yrðu loftvarnir, kafbátavarnir, átök á hafi úti og landganga. Kínverjar senda herskip ásamt orrustuþotum og öðrum flugvélum til þátttöku í æfingunum, meðal kínversku skipanna verða tundurspillir og freigáta.
Af Rússa hálfu verða kabátar, herskip og flugvélar sendar til æfinganna.
Bæði ríkin munu senda þyrluskip og landgönguliða á vettvang.
Yang sagði að meginmarkmið æfinganna væri að samhæfa enn frekar getu herja ríkjanna tveggja til að „takast sameiginlega á við öryggisógnun á hafinu“.
Fyrstu sameiginlegu flotaæfingar ríkjanna á Miðjarðarhafi og Svartahafi voru í maí 2015. Flotar ríkjanna hafa komið saman til æfinga á Kyrrahafi síðan 2012.
Japanir og Kínverjar deila um yfirráð á hafsvæðum sem tengja löndin. Kínverjar segja Japani gera alltof mikið úr hættu af Kínverjum á Kyrrahafssvæðinu. Yang sakaði Japani um að mikla þessa hættu til að afsaka breytingar á lögum um japanska herinn. Í þeim felst að her Japana hefur nú heimild til að berjast við hlið bandamanna sinna komi til átaka.