Home / Fréttir / Sameiginleg yfirlýsing forsætisráðherra Finna og Svía: „Öryggi okkar alvarlega ógnað“

Sameiginleg yfirlýsing forsætisráðherra Finna og Svía: „Öryggi okkar alvarlega ógnað“

 Stefan Löfven og Juha Sipilä
Stefan Löfven og Juha Sipilä

Forsætisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar, Juha Sipilä og Stefan Löfven, hafa gripið til þess einstæða ráðs að skrifa sameiginlega grein til að gera þjóðum sínum grein fyrir nánari samvinnu ríkjanna komi til hættuástands. Þeir segja að nú steðji mesta hætta að öryggi Evrópu frá því í kalda stríðinu.

Hin sameiginlega grein forsætisráðherranna birtist í 12 dagblöðum Lännen-útgáfufélagsins í Finnlandi og í Dagens Nyheter í Stokkhólmi sunnudaginn 10. janúar.

Þeir boða enn nánari samvinnu ríkjanna í varnarmálum:

„Finnar og Svíar standa báðir utan hernaðarbandalaga. Við teljum þessa stefnu þjóna okkur vel. Við verðum að treysta á þessa reynslu í mati á viðbrögðum við þeim verkefnum sem nú blasa við okkur.

Staða okkar utan bandalaga stuðlar að stöðugleika og öryggi í allri Norður-Evrópu. Í þessu felst þó ekki að við höfum valið leið einangrunarstefnu. Við erum virkir aðilar að Evrópusambandinu. Þá skiptir samvinna við önnur Norðurlönd og Eystrasaltslöndin mjög miklu.“

Þeir segja að Finnar og Svíar geti staðið saman andspænis hættum og vopnuðum átökum framtíðarinnar taki stjórnvöld hvors lands um sig nauðsynlegar pólitískar ákvarðanir til að tryggja að þannig verði að málum staðið:

„Stigin hafa verið mikilvæg skref nýlega til að styrkja varnarsamstarf Finna og Svía. Það nær nú til sameiginlegra æfinga, aukinnar upplýsingamiðlunar og sameiginlegra afnota af höfnum og flugvöllum hvors annars.“

Sipilä og Löfven eru sammála um að á þessari stundu sé um verulega öryggisógn að ræða, hana megi einkum rekja til aukinna hernaðarumsvifa á Eystrasalti en einnig til átakanna í Sýrlandi og hættunnar af hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams:

„Staða Finna og Svía utan hernaðarbandalaga er mjög trúverðug. Við höfum ekki trú á öryggisstefnu sem tekur snöggum breytingum. Skyndisveiflur og snúningar eiga ákaflega illa við þegar um öryggi landa okkar er að ræða. Finnar og Svíar kjósa að rækta öryggisstefnu sína til langs tíma í anda gagnkvæmrar samvinnu og sífellt nánari tengsla.“

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …