Home / Fréttir / Salisbury: Sérsveitarmenn gegn hryðjuverkum og hermenn rannsaka morðtilraunina við rússnesk feðgin

Salisbury: Sérsveitarmenn gegn hryðjuverkum og hermenn rannsaka morðtilraunina við rússnesk feðgin

Unnið að eiturrannsókninni í Salisbury.
Unnið að eiturrannsókninni í Salisbury.

Rúmlega 200 vitni eru á skrá bresku lögreglunnar sem rannsakar eiturárásina á fyrrverandi rússneskan njósnara í borginni Salisbury í Suður-Englandi. Amber Rudd, innanríkisráðherra Breta, ber lof á hæfni lögreglunnar sem rannsakar meira en 240 sönnunargögn í málinu.

Nú hefur lögreglan rannsakað morðtilraunina við Rússann Sergei Skripal og dóttur hans Juliu í sex daga.

Rudd sagði að Skripal, 66 ára, og dóttir hans, 33 ára, væru undir læknishendi á héraðssjúkrahúsinu í Salisbury. Líðan þeirra væri „tvísýn en stöðug“ eftir að ráðist var á þau með taugaeitri.

Feðginin fundust meðvitunarlaus á garðbekk í Salisbury sunnudaginn 4. mars.

Innanríkisráðherrann sagði laugardaginn 10. mars að meira en 250 lögreglumenn úr sérsveit gegn hryðjuverkum ynnu að „meiriháttar rannsókn“.

Neyðarráð breskra stjórnvalda, Cobra, kom saman til fundar laugardaginn 10, mars og eftir hann sagði Rudd að ríkisstjórnin hefði virkjað mjög öflugt lið til að reyna að finna þá sem stæðu að baki morðtilrauninni. Hún sagði:

„Rannsóknin miðar að því að við tryggjum öryggi fólks og einnig að safnað sé öllum sönnunargögnum svo að við vitum nákvæmlega hvar við stöndum þegar kemur að því að tilgreina þá sem stóðu að baki árásinni

Þá er einnig nauðsynlegt að skoða umtalsvert magn af upplýsingum úr eftirlitsmyndavélum. Þetta er nákvæmnisrannsókn sem krefst mikillar kostgæfni og lögregla verður að fá svigrúm og tíma til að vinna að henni.“

Rússar hafa neitað allri aðild að árásinni. Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, segir að breska stjórnin muni bregðast við „af þunga“ leiði rannsókn málsins til þess að grunur falli á Rússa vegna árásinnar.

Um 180 hermenn voru kallaðir á vettvang vegna rannsóknarinnar. Þeir hafa veitt aðstoð við að fjarlægja hugsanlega eitruð ökutæki og annað. Þetta eru sérþjálfaðir hermenn úr landhernum, landgönguliði flotans og flughernum sem hlotið hafa sérstaka þjálfun í efna- og eiturhernaði.

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …