
Arkadíj Babstjenko, blaðamaður, alkunnur fyrir harða gagnrýni sína á Vladimír Pútín og aðra rússneska valdamenn, birtist ljóslifandi á blaðamannafundi í Kænugarði í Úkraínu síðdegis miðvikudaginn 30. maí, daginn eftir að fréttir bárust um að hann hefði verið myrtur í sömu borg.
Vasíjl Gristak, yfirmaður leyni- og öryggisþjóinustu Úkraínu sagði að Babstjenko hefði sviðsett morðið á sér í von um að geta þannig komið í veg fyrir raunverulegt samsæri um að myrða sig.
Rússinn Babstjenko, 41 árs, leitaði hælis í Úkraínu í fyrra eftir að hafa fengið morðhótanir vegna gagnrýni sinnar á hernað Rússa í Sýrlandi. Hann sagði á fréttamannafundi miðvikudaginn 30. maí að sviðsett morðið hefði verið skipulagt í tvo mánuði í samvinnu við öryggislögregluna í Úkraínu. Þriðjudaginn 29. maí kröfðust rússnesk yfirvöld að dauði hans yrði rannsakaður til hlítar þótt marga grunaði að Moskvumenn stæðu að baki illvirkinu.
Sagt var að kona hans hefði fundið sundurskotið lík hans við inngang íbúðar þeirra í Kænugarði. Babstjenko bað eiginkonu sína „sérstaklega afsökunar“ á blaðamannafundinum en ekki er ljós hvort hún átti aðild að sviðsetningunni eða ekki.
Frásögnin sem birtist af atburðinum þriðjudaginn 29. maí var á þá leið að eiginkonan hefði fundið Babstjenko í blóðbaði við innganginn á fjölbýlishúsinu þar sem þau búa. Hann hefði fengið nokkur skot í bakið og látist í sjúkrabíl á leið til bráðamóttöku. Bandarískir og evrópskir embættismenn fordæmdu aðförina og sögðu hana árás á frelsi fjölmiðla.
Af hálfu rússneska utanríkisráðuneytisins var lýst létti yfir að Babstjenko væri á lífi. „Bara að þetta væri alltaf svona. Það er leiðinlegt að sviðsetningar verði ekki í öðrum tilvikum,“ sagði Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, á Facebook. Rússneska ráðuneytið lét þess einnig getið í yfirlýsingu að morðið hefði sviðsett í „áróðursskyni“.
Vasíjl Gristak gaf til kynna að rússneska öryggislögreglan hefur ráðið Úkraínumann til að finna launmorðingja í heimalandi sínu. Hann sagði að þessi einstaklingur hefði sett sig í samband við ýmsa kunningja sína, þar á meðal uppgjafarhermenn, og boðið 30.000 dollara fyrir ódæðið, einn þeirra hefði skýrt lögreglunni frá samsærinu.
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, sagði að Babstjenko yrði tryggð vernd í Úkraínu.Hann taldi ólíklegt að í Moskvu létu menn málið niður falla, þeir kynnu frekar að færast í aukana.