Home / Fréttir / Sænskur öryggismálafræðingur: Huga þarf að öryggismálum Íslands með hliðsjón af breyttum aðstæðum

Sænskur öryggismálafræðingur: Huga þarf að öryggismálum Íslands með hliðsjón af breyttum aðstæðum

Niklas Granholm, aðstoðarforstjóri sænsku rannsóknarstofnunarinnar í varnarmálum, telur að staða Íslands í öryggismálum kalli á önnur viðbrögð nú en fyrir fimm áum þegar bandaríska varnarliðið hvarf héðan. Ráðstafanir sem menn hafi talið duga þá með loftvernd og eftirlitsflugi héðan á nokkurra mánaða fresti, kunni að vera orðnar úreltar nú vegna þeirra breytinga sem orðið hafa. Nauðsynlegt sé að líta til þessa til að komast hjá því að of mikil óvissa skapist á norðurslóðum vegna stefnu- og aðgerðaleysis af hálfu íslenskra stjórnvalda. Aukin áhersla Rússa á að sýna mátt sinn í nálægð Íslands hljóti að kalla á gagnráðstafanir.

Þetta kom fram í erindi sem Granholm flutti í hádegi fimmtudags 31. mars á vegum Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu. Alþjóðamálastofnunar HÍ, og Nexusm rannsóknarvettvangs á sviði öryggis- og varnarmála í Öskju. Erindið nefndist: Nýtt norðurskaut – öryggsimál á breytingatímum.

Granholm sagðist ekki sjá fyrir sér nýtt kalt stríð á norðurslóðum en óvarlegt væri að gera ekki ráð fyrir því að spenna kynni að aukast þar vegna nýs aðgangs að auðlindum við hlýnun jarðar og aukinna siglinga. Hann sagði að allt í einu gæti orðið sprenging í siglingum í Norður-Íshafi. Þótt yfirbragðið væri á þann veg um þessar mundir að lítið væri að gerast og þróunin væri hæg gæti í raun orðið stökkbreyting, ef eitthvert skipafélag teldi auðveldara en áður að nýta sér norðurleiðina milli Kyrrahafs og Atlantshafs fyrir norðan Rússland. Þar væri ekki aðeins um álitamál vegna íss að ræða heldur einnig vegna öryggis á siglingaleiðum. Spenna fyrir botni Miðjarðarhafs og fjölgun sjórána ylli því að útgerðarmenn leituðu að nýjum öruggum siglingaleiðum.

Hann taldi að áform um eldflaugavarnir hefðu áhrif á hernaðarlegt gildi norðurslóða. Brá hann upp korti sem sýndi að stysta leið langdrægra eldflauga frá skotmörkum í Íran til Bandaríkjanna er yfir norðurskautið og þar með ein yfir Ísland yrði flaugum beint gegn New York. Þótt ekki væri gert ráð fyrir að varnarflaugar yrðu á landi heldur um borð í skipum, skipti aðstaða á landi engu að síður máli.

Í erindi sínu nefndi Granholm þrjá óvissuþætti sem yllu erfiðleikum við að ráða í framtíð  norðurslóða: baráttu Grænlendinga fyrir sjálfstæði, sem hann taldi að þeir myndu öðlast, kreppu í stjórnmálum, efnahagsmálum og öryggismálum á Íslandi. Enginn vissi í raun hve langvinn hún yrði, fáein ár eða jafnvel áratugi. Loks yrði ekki einfalt að ýta auðlindanýtingu á Barentshafi í nýjan farveg, þótt Norðmenn og Rússar hefðu leyst 40 ára gamla deilu sína og eytt gráu svæði á hafinu.

Á fundinum var nokkuð rætt um hvort gera ætti sérstakan samning um skiptingu Norður-Íshafs eða láta hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna ráða. Granholm minnti á að ekki væri unnt að bera suðurskaut og norðurskaut saman í þessu tilliti. Suðurskaut væri land, norðurskaut haf og þar gilti hafréttarsáttmálinn.

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …