
Yfirmaður leyni- og öryggisþjónustu sænska hersins segir að ómönnuð flugför, drónar, skapi öryggisógn. Hann segir einnig að klofningur innan ESB þjóni hagsmunum Rússa.
„Við sjáum að Rússum gagnast sundrung innan ESB og þeir vilja gjarnan ýta undir hana og einnig innan NATO. Það auðveldar Rússum að fylgja fram eigin stefnu,“ sagði Gunnar Karlson við sænsku TT-fréttastofuna mánudaginn 4. júlí í Visby á Gotlandi.
Gunnar Karlson er yfirmaður Militära underrättelse- och säkerhetstjänsten (Must). Stofnunin er njósna- og öryggisdeild sænska hersins og yfir henni hvílir hvað mesta leynd innan sænska stjórnkerfisins.
Undanfarin hafa Must, aðrar sænskar öryggisstofnanir, sænski herinn og sænska ríkisstjórnin hvað eftir annað bent á að Rússar færi sig hernaðarlega upp á skaftið á Eystrasaltssvæðinu.
Þá er jafnframt bent á að rússnesk stjórnvöld hafi einnig hagsmuna að gæta á stór-pólitíska sviðinu. Þar gerist nú stórtíðindi með úrsögn Breta úr ESB auk þess sem innan ESB gæti klofnings í afstöðunni til Rússa. Ýmis ESB-ríki eru vinveittari Rússum en ráðamenn í Brussel vilja.
Karlson segir að Rússar sjái sér margvíslegan hag af sundrungu innan ESB og NATO, þar á meðal af því að taka einstök ESB-ríki ólíkum tökum.
„Við þessar aðstæður er Rússum sérstakt kappsmál að ná samningi við eitt ríki sérstaklega í stað þess að þurfa að eiga samskipti við fulltrúa ríkjaheildar eins ESB eða NATO, það er miklu erfiðara fyrir Rússa.
Þeir eiga þess kost að beita áhrifum sínum á ólíkan hátt í ólíkum ríkjum fái þeir tækifæri til viðræðna við hvert einstakt riki.“
Í sænska blaðinu Dagens Nyheter birtist nýlega frétt um að drónar hefðu, þrátt fyrir bann við næturflugi, verið sendir inn yfir Utö í suðurhluta skerjagarðs Stokkhólms. Þetta hefði að minnsta kosti gerst einu sinni í júní þegar sænskir, finnskir og bandarískir hermenn voru þarna á æfingu.
Gunnar Karlson staðfestir að frásagnir hafi borist um þetta. Málið sé til rannsóknar og of snemmt sé að segja hvað þarna hafi gerst og hvers vegna. Hann telur þó að drónar kalli á viðbrögð frá öryggissjónarmiði.
„Sífellt fleiri háþróuð flugför með sífellt háþróaðri nemum koma til sögunnar hjá æ fleirum og það er mjög erfitt að finna þau og stöðva.“
Finnska varnarmálaráðuneytið segir að líta beri á það sem brot á lofthelgi sendi erlent ríki ómannað flugfar án leyfis inn í finnska lofthelgi.
„Hernaðarlegum flugförum eða flugförum erlendra ríkja er óheimilt að fara inn í finnska lofthelgi án leyfis. Yfirvöldin sem gæta friðhelgis finnsks yfirráðasvæðis hafa heimild til að grípa til aðgerða sé brotið gegn friðhelginni og haga þeim í samræmi við mat á atvikum hverju sinni,” segir Teija Pellikainen í finnska stjórnarráðinu við Hufvudstadsbladet í Finnlandi.
Heimild: Hufvudstadsbladet.