Home / Fréttir / Sænsku almannavarnirnar boða kynningarefni um viðbrögð vegna hamfara og styrjaldar

Sænsku almannavarnirnar boða kynningarefni um viðbrögð vegna hamfara og styrjaldar

Signalen Viktigt meddelande till allmänheten (VMA) testas fyra gånger per år. Signalen går ut genom så kallade ljudgivare (bilden), som finns på hustak i många större tätorter i Sverige.
Signalen Viktigt meddelande till allmänheten (VMA) testas fyra gånger per år. Signalen går ut genom så kallade ljudgivare (bilden), som finns på hustak i många större tätorter i Sverige.

Í fyrsta sinn í rúm 30 ár ætla sænsk yfirvöld að dreifa til almennings bæklingi með fyrirmælum um viðbrögð á hættutímum. Fólk verður hvatt til að kynna sér til hvaða ráða skuli gripið á hættustundu eða í styrjöld.

Meðal spurninga í bæklingnum sem dreifa skal til 4,7 milljóna heimila í Svíþjóð er þessi: Hvað ber að gera skelli á styrjöld? Leitast er við að svara þvi í bæklingnum sem ber heitið: Verði hættuástand eða stríð.

Jyllands-Posten birtir frétt um þetta laugardaginn 13. janúar og vitnar í sænska Aftonbladet sem segir að sænsk stjórnvöld hafi ekki sent frá sér slíkan boðskap síðan á níunda áratugnum í skugga kalda stríðsins.

Þá hefði verið unnt að fá ráð um hvað gera skyldi yrði kjarnorkusprengju varpað á Svíþjóð og hvað menn ættu að taka með sér neyddust þeir til að yfirgefa heimili sín.

Aftonbladet segir að sænsku almannavarnirnar, Myndigheten för samhällsskydd och beredskap (MSB), ætli í maí og júní að láta bera bæklinginn út til 4,7 milljóna heimila.

Þetta er gert vegna þess hve mikið og vaxandi öryggisleysi sé í Evrópu, einkum eftir framgöngu Rússa í Úkraínu.

„Þarna er fjallað um ýmislegt sem snertir hernað og hernaðarlega árás sem við höfum ekki miðlað til fólks í mörg ár. Það er krefjandi að gera það,“ segir Christina Andersson, sem stjórnar gerð bæklingsins, við Aftonbladet. Hún leggur jafnframt áherslu á að þar sé ekki eingöngu rætt um stríð heldur einnig annars konar hættuástand.

„Ríkisstjórninni hefur verið ljóst að bæta þyrfti þessa tegund af upplýsingum og að okkur sé nauðsynlegt að miðla þeim á endurbættan hátt. Hér er um að ræða leiðbeiningar um hvernig bregðast skuli við hættuástandi á friðartímum, við alvarlegar aðstæður í þjóðfélaginu sem kunna að skapast, t.d. vegna óveðurs eða ef ráðist er á mikilvægan lið í samfélagsgerðinni,“ segir hún.

Fyrir fáeinum dögum birti stofnun sem leggur mat á alhliða varnir Svíþjóðar skýrslu þar sem segir að ekki sé unnt að útiloka að Rússar ráðist á Svíþjóð.

Í skýrslunni er mælt með að styrkur sænska hersins sé svo mikill að hann geti staðist stríðsástand í að minnsta kosti þrjá mánuði. Þá beri Svíum að sjá til þess að þeir hafi nauðsynjar sem geri þeim kleift að bjarga sér í sjö daga sem er sá tími sem tekur að virkja sænska herinn til varna.

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …