Home / Fréttir / Sænskir stjórnmálamenn ræða beitingu hervalds gegn glæpahópum.

Sænskir stjórnmálamenn ræða beitingu hervalds gegn glæpahópum.

Morgan Johansson dómsmálaráðherra og Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar (t.v.).
Morgan Johansson dómsmálaráðherra og Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar (t.v.).

Jafnaðarmaðurinn Stefan Løfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði miðvikudaginn 17. janúar að hann útilokaði ekki að beita hernum gegn glæpahópum. Sama dag var gerð sprengjuárás á lögreglustöð í Málmey. 

„Það eru ekki fyrstu viðbrögð mín að beita hernum en ég er tilbúinn að gera það sem er nauðsynlegt að til binda enda á þessa alvarlegu skipulögðu glæpastarfsemi,“ sagði hann eftir að hafa tekið þátt í umræðum flokksleiðtoga í sænska þinginu. 

Í þingumræðunum lýsti forsætisráðherrann glæpastarfsmenni sem samfélagsmeini. Í fyrra hefðu verið gerðar 300 skotárásir og 40 manns hefðu fallið. Sama þróun hefði haldið áfram í upphafi nýs árs. Glæpamenn sýndu mannslífum enga virðingu og þróunin væri á þann veg að hann hefði einsett sér að snúa vörn í sókn. 

Jimmie Åkesson, formaður SD, Svíþjóðardemókratanna, „lýsti yfir stríði“ á hendur skipulagðri glæpastarfsemi og lagði til að sænska hernum yrði beitt til að uppræta hana. 

Eftir umræðurnar var Stefan Löfven beðinn um álit á tillögunni. 

„Við verðum að ræða nánar til hvaða sérstakra ráða verður gripið. Við höfum séð til þess að lögreglan fær aukið fjármagn og við höfum hert refsingar […] en við íhugum einnig önnur úrræði því að uppræta verður skipulagðri glæpastarfsemi, hún á ekki heima í þjóðlífi okkar,“ sagði Löfven við TT-fréttastofuna. 

TT: En þú útilokar ekki beitingu hersins? 

„Við könnum hvaða leiðir eru fyrir hendi, ég sé það ekki sem fyrsta kost, við verðum hins vegar að líta á hvernig við bindum enda á glæpahópanna.“ 

Dómsmálaráðherrann Morgan Johansson, flokksbróðir Löfvens, hafnar öllum hugmyndum um að kalla á herinn til starfa við hlið lögreglu. 

„Mér finnst þetta ekki tímabært. Ég tel að forsætisráðherrann telji það ekki heldur. Við höfum nægilegt svigrúm hjá lögreglunni til að halda þessu ofbeldi í skefjum. Við höfum stefnt liðsauka til þeirra svæði sem eru til umræðu,“ sagði dómsmálaráðherrann.  

„Málum er einnig þannig háttað að til að takast á við verkefni af þessu tagi er nauðsynlegt að búa yfir hæfni til þess og það er lögreglan sem býr yfir einstakri þekkingu og reynslu til að takast á við glæpahópa en ekki herinn,“ segir Morgan Johansson. 

Sænska lögreglan segir að öflug sprengja við lögreglustöðina í Rosengård í Málmey að kvöldi miðvikudags 17. janúar hafi verið árás á „lögregluna og starf hennar“. Morgan Johansson. sænski dómsmálaráðherrann, segir árásina „forkastanlega og huglausa“.  

Tveir karlmenn á þrítugsaldri, góðkunningjar lögreglunnar vegna fyrri afbrota, hafa verið handteknir grunaðir um aðild að málinu.  

Sprengjan olli ekki alvarlegum skaða á neinum. Hvellurinn var hins vegar svo hár að hann heyrðist víðsvegar um borgina. Skjálftinn var svo mikill að ýmsir héldu að orðið hefði jarðskjálfti, segir sænska blaðið Expressen. 

Ráðist var á sömu lögreglustöð með skothríð sumarið 2016. 

Fyrr miðvikudaginn 17. janúar særðust þrír einstaklingar í skotárás á lögreglubíl í Stokkhólmi. 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …