Home / Fréttir / Sænskir jafnaðarmenn vilja í NATO

Sænskir jafnaðarmenn vilja í NATO

Magdalena Andersson kynnir NATO-ákvörðun sænskra jafnaðarmanna.

Sænskir jafnaðarmenn styðja aðild Svía að NATO. Flokksstjórn þeirra tók þessa sögulegu ákvörðun á fundi sunnudaginn 15. maí.

„Við jafnaðarmenn teljum best fyrir Svíþjóð og öryggi sænsku þjóðarinnar að við göngum í NATO,“ sagði flokksleiðtoginn Magdalena Andersson forsætisráðherra.

Fundur flokksstjórnarinnar var haldinn í höfuðstöðvum flokksins í miðborg Stokkhólms og stóð í um fjóra tíma. Við svo búið hvarf flokkurinn frá stefnu sinni um Svíþjóð utan hernaðarlegra bandalaga sem hefur verið grunnstef sænskrar öryggismálastefnu í 200 ár. Var ráðherrum flokksins heimilað að standa að umsókn um aðild að NATO.

„Að standa utan hernaðarlegra bandalaga hefur gagnast Svíum vel en niðurstaða okkar er að þessi afstaða dugi okkur ekki eins vel í framtíðinni. Það er ekki léttvægt að taka slíka ákvörðun en við verðum að taka mið af raunveruleikanum eins og hann er,“ sagði Magdalena Andersson.

Meginskýringin á breyttri stefnu flokksins er innrás Rússa í Úkraínu. „Það má draga skil á milli þess sem er fyrir og eftir 24. febrúar 2022,“ sagði forsætisráðherrann.

Hún gat þess jafnframt að um nokkurra ára skeið hefðu mál þróast í ranga hátt og nefndi meðal annars stríð Rússa við Georgíumenn árið 2008, innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 og kröfur Rússa í öryggismálum á hendur ýmsum þjóðum þar á meðal Svíum í desember í fyrra.

Peter Hultqvist varnarmálaráðherra sem löngum hefur verið óhagganlegur í andstöðu sinni við NATO segir að málið snúist einnig gildisviðhorf.

„Þetta hefur ekki verið auðvelt ferli í flokki okkar, margir líta á sig sem talsmenn veru utan bandalaga. Á hinn bóginn mega menn ekki festast í því sem liðið er,“ sagði hann.

Á fundi flokksstjórnarinnar voru ekki allir sáttir við stefnubreytinguna þótt ekki kæmi til opins ágreinings.

Sænskir jafnaðarmenn hafa þann fyrirvara á stuðningi sínum við aðildina að NATO að Svíar setji einhliða fyrirvara gegn vistun kjarnorkuvopna í Svíþjóð og fastri viðveru erlends herafla á sænsku landi.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …