Home / Fréttir / Sænskir jafnaðarmenn vilja enn harðari útlendingastefnu

Sænskir jafnaðarmenn vilja enn harðari útlendingastefnu

Sterfan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Á árinu 2017 komu 27.000 hælisleitendur til Svíþjóðar. Útlendingamálaráðherrann telur að hæfilegt hefði verið að taka á móti 14.000.

Þegar straumur flótta- og farandfólks var mestur voru Svíar meðal þeirra þjóða sem opnuðu landamæri sín og sögðu að þeir myndu veita öllum Sýrlendingum búsetuleyfi.

Þetta leiddi til flóðbylgju fólks sem vildi setjast að í Svíþjóð. Síðan er mikið vatn til sjávar runnið og nú hafa Svíar hert útlendingalöggjöf sína til mikilla muna.

Kosið verður til sænska þingsins í september. Jafnaðarmannaflokkur Svíþjóðar kynnti kosningastefnuskrá sína föstudaginn 4. maí og þar kveður við harðan tón í útlendingamálum. Á blaðamannafundi þar sem Stefan Löfven forsætisráðherra og Heléne Fritzon útlendingamálaráðherra kynntu stefnuna sögðu þau að Svíar hefðu tekið á móti alltof mörgum hælisleitendum undanfarin fjögur ár.

Árið 2015 komu 163.000 hælisleitendur til Svíþjóðar. Í fyrra voru þeir 27.000 og í ár er spáð að þeir verði 23.000. Að mati jafnaðarmanna er sú tala of há.

„Þótt hælisleitendum hafi fækkað verulega í Svíþjóð er málum enn þannig hátta að þeir eru hlutfallslega umtalsvert fleiri en fellur að íbúafjölda okkar innan Evrópu. Næstum tvöfalt hærri,“ sagði Heléne Fritzon.

Forsætisráðherrann vildi ekki nefna neina tölu þegar hann ræddi fjölda hælisleitenda en lét við það sitja að Svíar ættu að taka mið af eigin íbúafjölda við mótttöku þeirra. Útlendingamálaráðherrann segir að hlutfallslega sé hæfilegur fjöldi hælisleitenda 14-15.000.

Þessi afstaða stjórnarflokksins leiðir til þess að ekki verður dregið úr landamæragæslu sænskra stjórnvalda á næstunni. Þá verður gripið til nýrra aðgerða til að greina hælisleitendur. Stefnt er að því að þrengja svigrúm hælisleitenda til ákveða sjálfir hvar þeir taka sér búsetu. Þá verða aukin úrræði stjórnvalda til að halda þeim sem fá ekki hæli í vörslu yfirvalda.

Skoðanakannanir í Svíþjóð sýna að um 40% vilja að tekið verði á móti umtalsvert færri flóttamönnum. Alls eru um 60% gagnrýnir á útlendingastefnuna til þessa og aðeins um 12% vilja slaka á henni.

 

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …