Home / Fréttir / Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Frá Stokkhólmi.

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að þeir hafi ekki litið innflytjendavandamál „nægilega alvarlegum augum“ og segja þeir stefnu sína hafa verið „misráðna“.

Sagt er frá skýrslunni á dönsku vefsíðunni Berlingske mánudaginn 27. nóvember. Þar segir að þar sé einni af afleiðingum stefnu Jafnaðarmannaflokksins lýst á þann veg að til sögunnar hafi komið „samhliða-samfélög“ og glæpavæðing hafi magnast í landinu. Á hinn bóginn sé því einnig fagnað í skýrslunni að unnið hafi verið að aðlögun og að hlýlegri móttöku flóttafólks.

Jafnaðarmannaflokkurinn var við völd í Svíþjóð 2014 til 2022 og þar á undan frá 1994 til 2006. Litið er til þessara ára í skýrslunni og niðurstaðan er skýr: Útlendingastefna jafnaðarmanna misheppnaðist.

Í Berlingske er vitnað til sænska Aftonbladets en blaðamenn þess hafi lesið skýrsluna.

Skýrsluhöfundar komast að þeirri niðurstöðu að mörg sænsk þjóðfélagsmein eins og „samhliða-samfélagið“, fjölgun glæpa og trúarbragðaöfgar megi rekja til ófullnægjandi útlendinga- og aðlögunarstefnu.

„Sem þjóð höfum við ekki staðið rétt að málum (…) Mér finnst við eigum að beita okkur harðri sjálfsgagnrýni. Ég gagnrýni bæði sjálfa mig og flokk minn,“ segir Lawen Redar, sem er situr á þingi fyrir flokkinn. Hún er aðalhöfundur skýrslunnar.

Hún segir að flokkurinn hafi ekki litið af „alvöru“ á þjóðfélagsþróunina af ótta við að valda reiði meðal einstakra hópa fyrir utan að flokknum yrði líkt við Svíþjóðardemókratana (SD). Þeir hafa lengi verið „úti í kuldanum“ í sænskum stjórnmálum vegna andúðar sinnar á útlendingastefnu stjórnvalda og sérstaklega Jafnaðarmannaflokksins. Nú stendur SD að baki ríkisstjórn borgaralegu flokkanna í Svíþjóð.

Hvað sem líður afdráttarlausri niðurstöðu skýrslunnar vill Lawen Redar ekki taka undir harða stefnu Svíþjóðardemókratanna. Þeir virði ekki alþjóðasamþykktir. Þeir hafi aðeins gagnrýnt en ekki boðað neinar lausnir.

Kenning hennar er að harka SD hafi tafið fyrir umbótum á stefnu Svía í útlendingamálum. Frá því að þeir fengu sæti á þingi árið 2010 hafi það verið kappsmál annarra flokka að lýsa sig ósammála þeim. Það hafi útilokað umræður um skynsamlega stefnu og lausnir. SD beri vissulega ábyrgð á núverandi stöðu mála.

Í Berlingske er bent á að danskir jafnaðarmenn hafi undir forystu Helle Thorning Schmidt og síðar Mette Frederiksen gert upp við fyrri útlendingastefnu sína og fært sig til hægri. Raunar hafi sænskir jafnaðarmenn fetað í fótspor þeirra undanfarin tvö ár.

Það var fyrst árið 2020 sem jafnaðarmaðurinn Stefan Löfven, þáv. forsætisráðherra Svíþjóðar, viðurkenndi að fjöldi innflytjenda ætti verulegan þátt í að afbrotum fjölgaði í landinu. Hann steig þar skref sem enginn stjórnmálamaður sem naut trausts ráðandi afla í Svíþjóð hafði þorað að stíga áður.

Magdalena Andersson sem tók við forystu í Jafnaðarmannaflokknum af Löfven talaði á sama hátt í sænsku þingskosningabaráttunni síðsumars 2022: „Við höfum greinilega tekið á móti fleiri [flóttamönnum] en okkur tekst að laga að samfélaginu,“ sagði hún. „Staðan er allt önnur núna en 2015.“

Sænska hagstofan hefur í yfirliti frá árinu 2021 birt tölur sem sýna að frá árinu 2000 fjölgaði sænsku þjóðinni um rúmlega milljón manns sem fæddust erlendis. Það segir að um fimmtungur af 10,3 milljón íbúum Svíþjóðar sé fæddur erlendis.

„Á 21. öldinni hafa innflytjendur einkum komið frá löndum utan Evrópu, mörg þeirra landa eru í upplausn og án starfandi skólakerfa. Við höfum ekki þorað að viðurkenna að hópar frá þessum löndum þurfa allt annars konar félagslega aðstoð en aðrir. Við höfum verið hrædd við að skapa reiði þessa fólks,“ segir Lawen Redar við Aftonbladet.

Af skýrslunni má ráða að framvegis vilji sænskir jafnaðarmenn semja við flokka til hægri um útlendingamál. Þar verði að virða alþjóðasamþykktir. Semji jafnaðarmenn til vinstri verði þeir að tryggja að viðsemjendurnir viðurkenni að „að tölur segi sögu“. Eins og sjá megi af vandanum sem við blasi.

Þess er vænst að skýrslan verði lögð til grundvallar við mótun stefnu sænska Jafnaðarmannaflokksins á flokksþingi árið 2024.

 

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …